Sport

Eitt ár í Ólympíuleikana í Tókýó: Svona líta endurunnu verðlaunapeningarnir út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Verðlaunapeningarnir á ÓL 2020 í Tókýó.
Verðlaunapeningarnir á ÓL 2020 í Tókýó. AP/Koji Sasahara

Sumarólympíuleikarnir 2020 eða 32. Ólympíuleikarnir frá upphafi munu fara fram í Tókýó í Japan frá 24. júlí til 9. ágúst á næsta ári. Í dag er því nákvæmlega eitt ár þar til að leikarnir hefjast.

Tókýó var valin sem gestgjafi næstu Ólympíuleika á 125. fundi Alþjóðaólympíunefndarinnar í Buenos Aires í Argentínu fyrir tæpum sex árum síðan eða 7. september 2013.

Þetta verður í annað skiptið frá leikunum 1964 sem Ólympíuleikarnir verða haldnir í Tókýó sem verður þar með fyrsta borgin í Asíu sem hýsir leikana tvisvar.

Í tilefni af þessum tímamótum þá kynntu Japanir meðal annars hvernig verðlaunpeningarnir á ÓL 2020 munu líta út en hér fyrir neðan má sjá gull-, silfur- og bronsverðlaunin sem verða afhent á leikunum næsta sumar.

Japanir búa til peningana meðal annars úr endurunnum farsímum og öðrum tækjum sem var hægt að endurnýta en það má sjá kynningu á þeim hér fyrir neðan.Á þessum næstu Sumarólympíuleikum verður keppt í nokkrum nýjum íþróttagreinum, þar á meðal 3x3-körfubolta, BMX-hjólreiðum og Madison-boðhjólreiðum.

Samkvæmt breytingum á reglum Alþjóðaólympíunefndarinnar getur ólympíunefndin sem heldur leikana leyft keppnir í öðrum greinum en kjarnagreinum Ólympíuleikanna. Þannig mun verða keppt í karate, sportklifri, brimbrettasiglingum og hjólabrettum á leikunum í Tókýó. Að auki verður keppt í hafnabolta og mjúkbolta sem duttu út eftir 2008.

Alls verða 339 keppnir í 33 greinum og hefur aldrei verið keppt í fleiri íþróttagreinum á Ólympíuleikum.

Japanir ætla að halda leikana með glæsibrag en hér fyrir neðan má fylgjast með hátíðarhöldum þeirra í tilefni af því að það eru nákvæmlega eitt ár þar til að 32. Ólympíuleikarnir verða settir í Tókýó í Japan.Nú er að líða að kvöldi í Japan en þessi hátíðahöld hófust klukkan 16.15 að japönskum tíma eða 7.15 að íslenskum tíma.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.