Sport

Anton Sveinn McKee tryggði sér farseðilinn á ÓL í Tokýó 2020

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anton Sveinn McKee er kominn inn á ÓL 2020.
Anton Sveinn McKee er kominn inn á ÓL 2020. Mynd/Sundsamband Íslands
Anton Sveinn McKee varð í nótt fyrsti Íslendingurinn til að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í Tokýó á næsta ári. Anton náði Ólympíulágmarkinu um leið og hann tryggði sig inn í milliriðla í 200 metra bringusundi.

Anton Sveinn McKee synti 200 metra bringusundi á 2:10,32 mínútum í nótt en Ólympíulágmarkið í greininni er 2:10,35 mínútur. Anton náði sextánda besta tímanum í undanriðlinum.

Íslandsmet Antons í þessari grein er 2.10.21 mínútur en því náði hann á HM í Kazan í ágúst 2015.

Anton Sveinn er um leið fyrsti sundmaðurinn á heimsmeistaramótinu í Gwangju í Suður-Kóreu sem kemst áfram í milliriðli en Íslandsmet hans ío 50 og 100 metra bringusundi dugðu ekki til þess.

Anton var glaður eftir sundið sagðist hafa synt sitt sund yfirvegað sem hafi skilað sér í lokin. Í kvöld þurfi hann svo að vinna með rennslið og hraðann. Anton Sveinn keppir í milliriðlinum klukkan 11.00 að íslenskum tíma.





Snæfríður Sól Jórunnardóttir.Mynd/ssí/Simone Castrovillari
Snæfríður Sól Jórunnardóttir synti líka síðari greinina sína á HM50. Hún kláraði 100 metra skriðsund á 57,34 sekúndum sem er í takti við þá tíma sem hún hefur náð á þessu ári.

Sundið hennar var ágætlega útfært en hægara en hún ætlaði sér. Hennar besti tími til þessa í greininni er 56,31 sekúndur síðan á danska meistaramótinu sumarið 2018.

Snæfríður var jákvæð eftir sundið, hún tekur þessa þátttöku með í reynslubankann, nú þegar hún hefur undirbúning fyrir Evrópumeistaramótið í 25 metra braut sem verður í Glasgow í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×