Sport

Anton Sveinn í sextánda sæti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Anton Sveinn náði ekki að synda eins hratt og í nótt.
Anton Sveinn náði ekki að synda eins hratt og í nótt. Simone Castrovillari
Anton Sveinn McKee komst ekki í úrslit í 200m bringusundi á HM í 50m laug í Suður-Kóreu í dag.

Anton Sveinn synti í fyrri undanúrslitariðlinum og var hann þriðji eftir fyrri 100 metrana. Hann drógst hins vegar aftur úr á þeim seinni og varð síðastur í mark á tímanum 2:10,68 mínútum.

Það er hægar heldur en hann synti í undanrásunum í morgun, þar synti hann á 2:10,32 mínútum og tryggði sér sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó. Íslandsmet Antons í greininni er 2:10,21 mínútur.

Seinni undanúrslitariðillinn var hraðari en sá fyrri og fóru allir á betri tíma en Anton, sem þýðir að hann lenti í 16. sæti. Hann hefði þurft að synda á 2:08,28 til þess að komast í úrslit.

Ástralinn Matthew Wilson fer með besta tímann inn í úrslitin en hann jafnaði heimsmetið í greininni þegar hann synti á 2:06,67.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×