Innlent

„Með miklum ó­líkindum að sjá vanga­veltur um brot á siða­reglum ráð­herra“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, veltir því fyrir sér hvort varaformennska Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, í bankaráði AIIB sé brot á siðareglum ráðherra.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, veltir því fyrir sér hvort varaformennska Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, í bankaráði AIIB sé brot á siðareglum ráðherra.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir það með miklum ólíkindum að sjá vangaveltur um brot á siðareglum ráðherra í tengslum við það að hann hafi verið kjörinn varaformaður bankaráðs Asíska innviðafjárfestingabankans, AIIB.

Greint var frá því um helgina að Bjarni hafi tekið við varaformennsku í ráðinu. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, ákvað í kjölfarið að senda fyrirspurn til fjárlaganefndar Alþingis hvort þessi störf Bjarna kunni að vera brot á siðareglum ráðherra.Bjarni svarar þessum vangaveltum í færslu á Facebook-síðu sinni í dag. Segir hann að fjármála- og efnahagsráðherra Íslands sitji ólaunað í bankaráði AIIB ásamt fulltrúum annarra 78 fullgildra aðildarríkja bankans.

„Í síðustu viku skipti bankaráðið með sér verkum. Það kom í hlut Íslands og þar með minn að gegna varaformennsku.‬

Það er með miklum ólíkindum að sjá vangaveltur um brot á siðareglum ráðherra af þessu tilefni. Það vantar bara að menn segist hafa um það rökstuddan grun,“ segir Bjarni á Facebook-síðu sinni.

Með orðum sínum um rökstuddan grun er ráðherrann að vísa í orð Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, sem hún lét falla í Silfrinu í febrúar í fyrra.

Sagði Þórhildur Sunna að uppi væri rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði dregið að sér fé í umræðu um akstursgreiðslur til hans og annarra þingmanna.

Siðanefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Þórhildur Sunna hefði brotið gegn siðareglum þingmanna með þessum ummælum sínum.
Tengdar fréttir

Bjarni kjörinn varaformaður bankaráðs AIIB

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra var kjörinn varaformaður bankaráðs (e. board of governors) Asíska innviðafjárfestingarbankans (AIIB) á ársfundi bankans sem haldinn var í Lúxemborg á föstudag og laugardag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.