Sport

"Þurfum að keppa við fólk sem notar ólögleg lyf á HM“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lilly King.
Lilly King. vísir/getty

Ólympíumeistarinn Lilly King segir það ljóst að hún og aðrir keppendur á heimsmeistaramótinu í sundi muni þurfa að keppa við svindlara.

Heimsmeistaramótið í Suður-Kóreu hófst í þessari viku þar sem keppt var í dýfingum, vatnspóló og listrænu sundi. Fyrstu undanrásirnar í hefðbundnum sundgreinum munu hefjast á morgun.

Lilly King er margfaldur verðlaunahafi í bringusundi og vann gullverðluan í 100m bringusundi í Ríó 2016, þar sem Hrafnhildur Lúthersdóttir varð sjötta.

„Ég held við getum öll sagt að á einhverjum tímapunkti munum við þurfa að keppa við fólk sem notar ólögleg lyf. Við ættum ekki að þurfa að segja þetta,“ sagði King sem hefur verið gagnrýnin á hvernig sundsambandið tekur á lyfjamisnotkun.

„Það er sorglegt að við höfum öll þurft að keppa við þau sem brjóta reglurnar og að þau eru líklega öll að keppa á þessu móti.“

Orð King voru svör við spurningum blaðamanna út í mál Sun Yang, þrefalds Ólympíumeistara frá Kína. Fréttir herma að Sun hafi sloppið við lyfjabann með því að eyðileggja blóðprufur.

Alþjóðasundsambandið ákvað að dæma Sun ekki í bann þegar hann var sakaður um lyfjamisnotkun í janúar. Alþjóðlega lyfjaeftirlitið áfrýjaði þeirri ákvörðun til Íþróttadómstólnum, þar sem mál Sun verður tekið fyrir.

Ísland á fjóra keppendur á HM, þau Anton Svein McKee, Eygló Ósk Gústafsdóttur, Snæfríði Sól Jórunnardóttur og Kristinn Þórarinsson.

Anton Sveinn verður fyrstur Íslendinganna í laugina, hann keppir í 100m bringusundi á aðfaranótt sunnudags að íslenskum tíma.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.