Íslenski boltinn

Ágúst: Þeir byrjuðu ekki þennan leik og það var mín ákvörðun

Ágúst Gylfason.
Ágúst Gylfason. vísir/bára
„Þetta var skrýtið. Mér fannst við vera með fulla stjórn á leiknum en hleypum þeim inn í leikinn með tveimur mörkum og svo kviknar aðeins í okkur þegar þau eru komin.“

„Þeir falla niður og við sköpum okkur ágætis færi til að skora. Náum að skora eitt mark og þá hélt maður að við myndum setja annað en það náðist því miður ekki í dag,“ sagði niðurlútur Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, eftir 2-1 tap sinna manna gegn nágrönnunum í HK.

Ágúst var ekki sammála undirrituðum um að leikurinn hefði verið svipaður og fyrri leikurinn þar sem honum fannst Blikar vera eftir á í öllum aðgerðum.

„Þetta var allt öðruvísi en fyrri leikurinn. Þar mættum við bara ekki til leiks og vorum undir í öllu. Í dag fannst mér við töluvert betri en sá fyrri var bara lélegur af okkar hálfu. Við héldum boltanum betur í dag og sköpuðum fullt af færum,“ sagði Ágúst um muninn á milli leikjanna tveggja.

Aron Bjarnason og Gísli Eyjólfsson byrjuðu báðir á varamannabekk Breiðabliks í dag. Aron er að fara til Ungverjalands nú 20. júlí á meðan Gísli er nýkominn til baka eftir að hafa verið á láni hjá Mjallby í Svíþjóð.

Aðspurður hvort þeir hefðu mögulega átt að byrja leikinn þá sagði Ágúst að svo hefði vel mátt vera.

„Ég velti öllu fyrir mér varðandi leikmennina, hver á að byrja og annað. Þeir byrjuðu ekki þennan leik og það var mín ákvörðun. Kannski var það röng ákvörðun og ég verð að lifa með því,“ sagði Ágúst að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×