Lífið

Endurfundir Lady Gaga og Bradley Cooper ólíklegir í bili

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mikil innlifun þykir einkenna frammistöðu Lady Gaga og Bradley Cooper þegar þau stíga saman á stokk. Hér eru þau á Óskarsverðlaunahátíðinni síðastliðinn febrúar.
Mikil innlifun þykir einkenna frammistöðu Lady Gaga og Bradley Cooper þegar þau stíga saman á stokk. Hér eru þau á Óskarsverðlaunahátíðinni síðastliðinn febrúar. Vísir/Getty
Einn skipuleggjenda Glastonbury-tónlistarhátíðarinnar, Emily Eavis, hefur vísað á bug orðrómum þess efnis að Lady Gaga og Bradley Cooper verði leynigestir á hátíðinni í ár. Því hafði meðal annars verið velt upp af bresku útvarpskonunni Edith Bowman.

Gaga og Cooper hafa átt farsæla ferla, hún sem söngkona og hann sem leikari, en á síðasta ári sameinuðu þau krafta sína í kvikmyndinni A Star Is Born þar sem þau seildust inn á svið hvors annars. Myndin naut gríðarlegra vinsælda, þá sérstaklega tónlistin úr henni.

Lagið Shallow hlaut meðal annars náð fyrir augum Óskarsverðlaunadómnefndarinnar og vann í flokki besta lags á hátíðinni í febrúar. Alls var myndin tilnefnd til átta verðlauna.

„Ég gæti vitað um eitt [óvænt atriði], ég gæti ekki mögulega sagt frá,“ sagði Bowman í þættinum Sunday Brunch á útvarpsstöðinni Channel 4.

„Bradley Cooper var gestur í hlaðvarpinu mínu. Hann var að tala um A Star Is Born, og þegar ég talaði við hann sagði ég að mig langaði bara að sjá þau [Cooper og Gaga] taka gigg, þú veist, spila í beinni.“

Að sögn Bowman tók Cooper vel í þá hugmynd og greindi frá því að hann og Gaga hafi verið í viðræðum við skipuleggjendur Glastonbury um að koma fram á hátíðinni, sem hefst einmitt á miðvikudaginn.

Við þessar fregnir glöddust margir netverjar enda aðdáendahópur myndarinnar stór og eftirvæntingin eftir sameiningu Cooper og Gaga á stóra sviðinu mikil.

Ekkert verður af „leyniatriðinu“

Emily Eavis, skipuleggjandi Glastonbury, var þó fljót að slökkva tilhlökkunarelda æstra aðdáenda en í dag tísti hún því að ekki stæði til að Cooper og Gaga kæmu fram á hátíðinni.

„Áður en þetta fer úr böndunum… svarið er nei, þetta er ekki að fara að gerast.“





Margir aðdáendur Cooper og Gaga urðu eðlilega afar svekktir við þessar fregnir og klofin hjörtu og „grátkallar“ voru allsráðandi í Twitter-umræðu um málið.

Orðrómar þess efnis að þau Gaga og Cooper eigi í ástarsambandi, eða að slíkt sé í uppsiglingu, hafa verið háværir í Hollywood. Samband þeirra og neistaflug í myndinni þykir bera þess merki að meira sé í gangi á milli þeirra heldur en sýnt er á hvíta tjaldinu.

Það var síðan ekki til þess að slökkva slúðureldana þegar fréttir fóru að berast þess efnis að Cooper og unnusta hans, Irina Shayk, hefðu slitið sambandi sínu.

Hvað sem mögulegu ástarsambandi Lady Gaga og Bradley Cooper líður er nokkuð ljóst að aðdáendur þurfa að bíða lengur en fram að Glastonbury til þess að sjá þau koma saman fram á nýjan leik.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×