Lífið

Pusha T hleypur í skarðið á Solstice vegna vegabréfsvandræða Rae Sremmurd

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Pusha T á tónleikum.
Pusha T á tónleikum. Vísir/getty

Enn eru hrókeringar á tónlistarhátíðinni Secret Solstice en vegna vandræða með vegabréf mun rapptvíeykið Rae Sremmurd ekki troða upp á hátíðinni líkt og tilkynnt var um fyrr í kvöld, en þeir hugðust leysa bresku söngkonuna Ritu Ora af hólmi, sem forfallaðist vegna veikinda. Í stað Rae Sremmurd mun bandaríski rapparinn Pusha T koma fram á Secret Solstice.

„Það er óhætt að segja að það sé búið að vera nóg að gera á skrifstofu Secret Solstice í dag,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum Scret Solstice sem send var út á áttunda tímanum.

Þar er málið rakið en eins og fram kom í fjölmiðlum í dag neyddist Rita Ora til þess að hætta við tónleika sína á Secret Solstice vegna veikinda. 

Í kjölfarið var strax gengið frá samningum við bræðurna í Rae Sremmurd. Þá kom hins vegar babb í bátinn.

„[..] þegar allt var klappað og klárt og búið að senda tilkynningu á fjölmiðla kom í ljós að vegna vegabréfsvandræða kæmust ekki allir úr þeirra hópi til landsins,“ segir í tilkynningu.

„Til allra lukku vorum við með fleiri í sigtinu og hafa náðst samningar við Rapparann Pusha T um að hlaupa í skarðið. […] Það er mikill fengur í því fyrir alla hip hop aðdáendur að fá þenna frábæra rappara til landsins.“

Pusha T er bandarískur rappari, lagahöfundur og tónlistarframleiðandi. Nýjasta plata rapparans, Daytona, var tilnefnd til Grammy-verðlauna sem rappplata ársins nú í ár. Hér að neðan má hlusta á lagið If you know you know úr smiðju rapparans.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.