Lífið

Bræðurnir í Rae Sremmurd koma í stað Ritu Ora á Secret Solstice

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bræðurnir í Rae Sremmurd, þeir Slim Jxmmi og Swae Lee, á tónleikum.
Bræðurnir í Rae Sremmurd, þeir Slim Jxmmi og Swae Lee, á tónleikum. Vísir/Getty
Uppfært klukkan 19:56:

Vegna vandræða með vegabréf mun rapptvíeykið Rae Sremmurd ekki troða upp á Secret Solstice líkt og tilkynnt var um í fyrstu. Í stað Rae Sremmurd mun bandaríski rapparinn Pusha T koma fram á Secret Solstice.



Bandaríska rapptvíeykið Rae Sremmurd mun koma í stað bresku söngkonunnar Ritu Ora á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem fram fer í Laugardalnum um næstu helgi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsvarsmönnum hátíðarinnar.

Greint var frá því í dag að Rita Ora hefði neyðst til þess að hætta við tónleika sína á Secret Solstice vegna veikinda. Í tilkynningu frá hátíðinni segir að aðstandendur hafi fengið veður af mögulegum veikindum söngkonunnar á mánudag og þá strax hafið vinnu við að finna staðgengil.

„Í dag sendi Rita síðan út yfirlýsingu þess efnis að ekkert yrði af framkomu hennar á hátíðinni. Þegar það var ljóst að ekkert yrði af framkomu Ritu á hátíðinni var strax farið í það að ganga frá samningum við nýjan listamann,“ segir í tilkynningu.

Lendingin hafi verið bræðurnir í Rae Sremmurd, þeir Slim Jxmmi og Swae Lee, en þeir skutust upp á stjörnuhimininn árið 2016 með laginu „Black Beatles“. Þá hafa önnur lög úr smiðju þeirra notið mikilla vinsælda en þar má nefna lögin No Type og No Flex Zone.

Sjá einnig: Bræðurnir í Rae Sremmurd í eftirpartýi með Gísla Pálma

Swae Lee hefur jafnframt gert garðinn frægan upp á sitt einsdæmi undanfarin misseri, nú síðast í samstarfi við bandaríska rapparann Post Malone með laginu Sunflower.

Þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem bræðurnir leggja leið sína til Íslands en þeir héldu tónleika hér á landi árið 2015. Þeir stíga á svið á aðalsviði Secret Solstice hátíðarinnar kl 20:30 föstudaginn 21. júní.

Hér að neðan má hlusta á lagið No Type með Rae Sremmurd.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×