Lífið

Bræðurnir í Rae Sremmurd koma í stað Ritu Ora á Secret Solstice

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bræðurnir í Rae Sremmurd, þeir Slim Jxmmi og Swae Lee, á tónleikum.
Bræðurnir í Rae Sremmurd, þeir Slim Jxmmi og Swae Lee, á tónleikum. Vísir/Getty

Uppfært klukkan 19:56:
Vegna vandræða með vegabréf mun rapptvíeykið Rae Sremmurd ekki troða upp á Secret Solstice líkt og tilkynnt var um í fyrstu. Í stað Rae Sremmurd mun bandaríski rapparinn Pusha T koma fram á Secret Solstice.

Bandaríska rapptvíeykið Rae Sremmurd mun koma í stað bresku söngkonunnar Ritu Ora á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem fram fer í Laugardalnum um næstu helgi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsvarsmönnum hátíðarinnar.

Greint var frá því í dag að Rita Ora hefði neyðst til þess að hætta við tónleika sína á Secret Solstice vegna veikinda. Í tilkynningu frá hátíðinni segir að aðstandendur hafi fengið veður af mögulegum veikindum söngkonunnar á mánudag og þá strax hafið vinnu við að finna staðgengil.

„Í dag sendi Rita síðan út yfirlýsingu þess efnis að ekkert yrði af framkomu hennar á hátíðinni. Þegar það var ljóst að ekkert yrði af framkomu Ritu á hátíðinni var strax farið í það að ganga frá samningum við nýjan listamann,“ segir í tilkynningu.

Lendingin hafi verið bræðurnir í Rae Sremmurd, þeir Slim Jxmmi og Swae Lee, en þeir skutust upp á stjörnuhimininn árið 2016 með laginu „Black Beatles“. Þá hafa önnur lög úr smiðju þeirra notið mikilla vinsælda en þar má nefna lögin No Type og No Flex Zone.

Sjá einnig: Bræðurnir í Rae Sremmurd í eftirpartýi með Gísla Pálma

Swae Lee hefur jafnframt gert garðinn frægan upp á sitt einsdæmi undanfarin misseri, nú síðast í samstarfi við bandaríska rapparann Post Malone með laginu Sunflower.

Þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem bræðurnir leggja leið sína til Íslands en þeir héldu tónleika hér á landi árið 2015. Þeir stíga á svið á aðalsviði Secret Solstice hátíðarinnar kl 20:30 föstudaginn 21. júní.

Hér að neðan má hlusta á lagið No Type með Rae Sremmurd.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.