Innlent

Maí­mánuður heilsar kulda­lega

Atli Ísleifsson skrifar
Eftir hlýindi gærdagsins er að leggjast í norðan- og norðaustanáttir með kólnandi veðri.
Eftir hlýindi gærdagsins er að leggjast í norðan- og norðaustanáttir með kólnandi veðri. Vísir/Hanna
Þokuloft liggur eins og mara yfir landinu í morgunsárið en mun brotna upp þegar nær dregur hádegi, sér í lagi á Suðvesturlandi. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar í morgun.

Þar segir að eftir hlýindi gærdagsins sé að leggjast í norðan- og norðaustanáttir með kólnandi veðri. „Til allar hamingu er spáð að megnið af kalda heimskautaloftinu, sem kælingunni veldur fari talsvert austan við landið, mest yfir Skandinavíu og síðar Vestur-Evrópu og verði til leiðinda þar.“

Búist er við norðaustankalda og úrkomulitlu veðri fyrir norðan síðdegis, annars hægara og dálítil væta.

„Hæstur hiti dagsins nær vonandi 15 stigum suðvestan til, sem væri ágætt miðað við árstíma. Á morgun er áfram norðanátt og kólnar enn, ekki ólíklegt að einhver snjókorn falli norðaustanlands um kvöldið.  Maímánuður heilsar því kuldalega á baráttudegi verkalýðsins.“

Veðurhorfur á landinu

Hægviðri og skýjað að mestu, en víða þokuloft við ströndina fram eftir morgni. Norðaustan 8-13 m/s eftir hádegi og úrkomulítið, en hægara og skúrir syðra. Hiti 2 til 10 stig N-til, en allt að 15 stigum SV-lands. Norðan og norðaustan 8-13 og skýjað á morgun, dálítil él NA-lands seinni partinn, en hægari vindar og skúrir eða dálítil rigning syðra og kólnar heldur.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag, laugardag og sunnudag: Breytileg átt, 3-10 m/s, skýjað með köflum og úrkomulítið. Hiti 2 til 10 stig að deginum, hlýjast suðvestanlands en næturfrost víða, einkum norðantil. 

Á mánudag: Breytileg eða norðlæg átt 3-8 m/s og skýjað með köflum. Smáskúrir sunna- og suðvestanlands en annars þurrt að kalla. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast suðvestantil. 

Á þriðjudag: Útilit fyrir norðanátt og heldur kólnandi veður. Áfram stöku skúrir sunnanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×