Erlent

Stutt í að þúsund hafi dáið vegna ebólu í Austur-Kongó

Samúel Karl Ólason skrifar
Læknar og heilbrigðisstarfsmenn í fylgd hermanna.
Læknar og heilbrigðisstarfsmenn í fylgd hermanna. AP/Al-hadji Kudra Maliro
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að á næstu klukkustundum muni fjöldi látinna vegna ebólufaraldursins í Austur-Kongó fara yfir þúsund. Faraldurinn hefur herjað á íbúa landsins í um níu mánuði en hjálparstarf og bólusetningar hafa ekki gengið nægilega vel.

Öryggisástand hjálparstarfsmanna hefur ekki reynst nægilega gott og hefur gengið illa að bólusetja og huga að þeim tólf þúsund sem taldir eru hafa orðið fyrir vírusnum, þó þau séu ef til vill ekki smituð af ebólu, samkvæmt Reuters.



Til marks um það var Richard Mouzoko, háttsettur læknir hjá WHO, myrtur í síðasta mánuði þegar þungvopnaðir vígamenn réðust á sjúkrahús í Austur-Kongó. Hjálparstarfsmenn hafa verið sakaði um að dreifa sjúkdómnum og hafa einhverjir þeirra flúið landið vegna ástandsins.

Sjá einnig: Háttsettur starfsmaður WHO myrtur í Kongó



Forsvarsmenn WHO fóru til Afríku á dögunum, virtu ástandið fyrir sér og ræddu leiðir til að bæta það. Í yfirlýsingu á vef WHO segir að mikilvægt sé að alþjóðasamfélagið taki höndum saman við að reyna að binda enda á faraldurinn.



Einungis helmingi af þeim fjármunum sem hefur verið heitið til WHO vegna faraldursins hafa borist til stofnunarinnar.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, og Matshidiso Moeti, yfirmaður Afríkudeildar stofnunarinnar, segjast hafa áhyggjur af því að aukinn fjöldi smita muni valda frekari erfiðleikum á komandi misserum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×