Sport

„Ekki nokkur vafi á því að Semenya er kona“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Semenya berst fyrir rétti sínum að fá að hlaupa sem kona hjá alþjóða frjálsíþróttasambandinu.
Semenya berst fyrir rétti sínum að fá að hlaupa sem kona hjá alþjóða frjálsíþróttasambandinu. vísir/getty
Það er búist við átökum á milli hlaupakonunnar Caster Semenya og Alþjóða frjálsíþróttasambandsins, IAAF, er þau mætast í réttarsal.

Semenya er að berjast gegn reglum sem IAAF hefur lagt til en þau snúast um að kvenhlauparar megi aðeins vera með ákveðið mikið magn af testósteróni í líkamanum.

Samkvæmt The Times þá munu lögfræðingar IAAF halda því fram að Semenya sé líffræðilega karlmaður sem sé skilgreind sem kona.

„Ungfrú Semenya er án nokkurs vafa kona. Hún er hetja sem hefur veitt milljónum um allan heim innblástur,“ segir í yfirlýsingu frá lögfræðingum Semenya.

„Hún er að berjast fyrir því að fá að hlaupa án þess að gripið sé til óþarfa inngripa af læknum. Hún er að berjast fyrir því að fá að hlaupa frjáls.“

Nýju reglurnar áttu að taka gildi þann 1. nóvember á síðasta ári en því var svo frestað til 26. mars út af lögsókn Semenya.

Þessar nýju reglur eiga að ná til kvenna sem keppa í lengri hlaupum eða frá 400 metrum upp í míluhlaup. Samkvæmt þeim þarf testósterón-magn kvennanna að vera undir ákveðnu magni sex mánuðum fyrir hlaup.

Það verður áhugavert að fylgjast með þessu máli á næstu misserum enda mun það vafalítið vekja mikla athygli. Semenya er tvöfaldur Ólympíumeistari og þrefaldur heimsmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×