Erlent

Demókratar ætla að standa í vegi fyrir Trump

Andri Eysteinsson skrifar
Nancy Pelosi, Chuck Schumer og félagar úr Demókrataflokknum hyggast standa í vegi fyrir Trump
Nancy Pelosi, Chuck Schumer og félagar úr Demókrataflokknum hyggast standa í vegi fyrir Trump Getty/Bloomberg/ Alex Wong
Stjórnmálamenn úr röðum Demókrata hafa brugðist ókvæða við ákvörðun Bandaríkjaforseta, Donald Trump, en forsetinn lýsti í dag yfir neyðarástandi á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Trump hafði ekki tekist að semja við þingið um fjármögnun landamæramúrsins sem hann hefur talað fyrir frá upphafi kosningabaráttu hans árið 2015. Með ákvörðun sinni um að lýsa yfir neyðarástandi vegna „innrásarinnar úr suðri“ mun Trump fara fram hjá Bandaríkjaþingi og ráðstafa fjármunum ríkissjóðs til þess að múrinn verði að veruleika.

Forsetinn viðurkenndi sjálfur á blaðamannafundi í dag að aðgerðin myndi eflaust enda fyrir dómstólum en sagðist viss um að Hæstiréttur myndi úrskurða honum í hag.

Sjá einnig: Trump lýsir yfir neyðarástandi á landamærunum

Trump hefur á forsetatíð sinni skipað tvo dómara í Hæstarétt, þá Neil Gorsuch og Brett Kavanaugh, fimm af níu hæstaréttardómurum hafa nú verið skipaðir af forsetum úr röðum Repúblikanaflokksins.

Silja Bára Ómarsdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands sagði í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld að kæri demókratar ákvörðunina til Hæstaréttar gætu málaferli tekið mjög langan tíma, jafnvel fram yfir næstu forsetakosningar.

Segja yfirlýsinguna brjóta á stjórnarskrá

Andstæðingar Trump voru ekki lengi að lýsa skoðunum sínum á neyðarástandsyfirlýsingu forsetans. Leiðtogar Demókrata fordæmdu yfirlýsingunni og sögðu Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar og Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni ákvörðunina ólögmæta.

„Þetta tíðkast ekki en hins vegar hefur forsetin víðfeðm völd til að gera þetta. Þingið hefur fjárveitingarvaldið samkvæmt stjórnarskrá, þingið hefur veitt forsetanum töluvert sjálfdæmi um það hvað hann metur vera neyðarástand,“ sagði Silja Bára Ómarsdóttir sem eins og áður sagði var gestur í kvöldfréttum RÚV.

Pelosi kallaði jafn fram eftir aðstoð Repúblikana til að verja stjórnarskránna en fjölmargir hafa ýjað að því að ákvörðun Trump brjóti á stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Fleiri þingmenn hafa lýst yfir andúð sinni á ákvörðun forseta, þingkonan Alexandra Ocasio-Cortez sem hefur farið mikinn á fyrstu vikum þingmennsku sinnar er ein þeirra.

Ocasio-Cortez tilkynnti að ásamt þingmanninum Joaquin Castro, sem er tvíburabróðir forsetaframbjóðandans Julían Castro, hygðust leggja fram frumvarp til að stöðva Trump.

Að sögn Castro hafa tugir þingmanna sett nafn sitt við frumvarpið.

Mikill fjöldi þingmanna demókrataflokksins hafa tjáð sig um málið á Twitter, sjá má nokkrar færslur hér að neðan.

En það eru ekki bara óbreyttir þingmenn úr röðum demókrata sem hafa gagnrýnt ákvörðunina.

Forsetaframbjóðendur Demókrata, sem munu á næstu misserum berjast um að verða mótframbjóðandi Trump í forsetakosningunum 3. nóvember 2020 hafa einnig gagnrýnt Trump.

Slíkt er einnig uppi á teningunum hjá öldungadeildarþingmanninum þekkta Bernie Sanders, sem sagður er gæla við það að bjóða sig fram að nýju.

Einnig er einhver óánægja innan repúblikanaflokksins um ákvörðun Trump þrátt fyrir að margir þeirra, þar með taldir áhrifamestu þingmenn flokksins, hafi stutt ákvörðun forsetans.

Aðrir flokksmenn óttast að ákvörðunin verði fordæmisgefandi og geri þannig framtíðarforsetum Demókrata það kleift að lýsa yfir neyðarástandi til að þröngva málum sínum í gegn án aðkomu þingsins til dæmis breytingar á skotvopnalöggjöf.

Neyðarástand frá 1979

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka Ferðaþjónustunnar, sem er sagnfræðingur að mennt býður Facebook-vinum sínum upp á stuttan mola um neyðarástand í Bandaríkjunum.

Elsta neyðarástandsyfirlýsingin sem er enn í gildi er frá árinu 1979 en hana setti forsetinn þáverandi, Jimmy Carter í kjölfarið á gíslatöku á bandarískum ríkisborgurum í Tehran, höfuðborg Íran.


Tengdar fréttir

Trump tilbúinn til að loka alríkisstofnunum á nýjan leik

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er tilbúinn til að loka þriðjungi alríkisstofnanna Bandaríkjanna á nýjan leik í febrúar, náist ekki samningur sem honum þykir ásættanlegur um byggingu múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Trump mun lýsa yfir neyðarástandi

Hann ætlar einnig að skrifa undir útgjaldafrumvörp sem þingmenn Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins komust að samkomulagi um varðandi fjármögnun til öryggismála á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×