Erlent

Segja Bandaríkjastjórn hafa handtekið Rússa

Kjartan Kjartansson skrifar
Höfuðstöðvar rússneska utanríkisráðuneytisins í Moskvu.
Höfuðstöðvar rússneska utanríkisráðuneytisins í Moskvu. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Kreml halda því fram að bandarísk yfirvöld hafi handtekið rússneskan ríkisborgara daginn eftir að rússneskar öryggissveitir handtóku bandarískan mann og sökuðu hann um njósnir. Bandarísk yfirvöld lýstu manninn á flótta undan réttvísinni í byrjun síðasta árs

Rússneska utanríkisráðuneytið segir að Dmitrí Makarenko hafi verið handtekinn á Norður-Maríönueyjum, bandarísku yfirráðasvæði í Kyrrahafi, og hann fluttur til Flórída 29. desember. Þar hafi hann verið staddur með eiginkonu, ungu barni og öldruðum foreldrum sínum.

Handtakan segja Rússar að hafi átt sér stað daginn eftir að Paul Whelan var handtekinn í Moskvu, sakaður um njósnir. Fjölskylda Whelan hefur haldið fram sakleysi hans og sagt hann hafa verið í Rússlandi til að fagna brúðkaupi fyrrum félaga úr landgönguliði Bandaríkjahers.

Reuters-fréttastofan segir að bandarísk yfirvöld hafi ekki svarað fyrirspurn um Makarenko. Dómskjöl í Flórída sýni að alríkissaksóknarar hafi sakað hann og annan mann um samsæri um að flytja úr landi hernaðartól án leyfi bandarískra yfirvalda í júní árið 2017. Makarenko hafi verið lýstur á flótta í Bandaríkjunum í janúar í fyrra. Meintur samsærismaður hans játaði sök og var dæmdur í 26 mánaða fangelsi í júní.

Rússar halda því fram að þeir hafi engar skýringar fengið á handtöku Makarenko né náð af honum tali á Flórída.

Leiddar hafa verið líkur að því að Rússar hafi handtekið Whelan til að fá bandarísk yfirvöld til að skipta á honum og Maríu Butina, rússneskri konu sem játaði sig seka um njósnir í Bandaríkjunum í fyrra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×