Innlent

Sameiginlegir hagsmunir með borginni gerðu RÚV gjaldfært

Ari Brynjólfsson skrifar
Framkvæmdir hófust í nóvember 2016.
Framkvæmdir hófust í nóvember 2016. Fréttablaðið/Anton Brink
Sameiginlegir hagsmunir Ríkisútvarpsins og Reykjavíkurborgar urðu til þess að byggt var íbúðarhúsnæði á lóðum í kringum Útvarpshúsið í Efstaleiti. Með samningnum við Reykjavíkurborg varð RÚV sér úti um 1,5 milljarða króna sem afstýrði því að stofnunin yrði ógjaldfær.

Fram kemur í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar að heildarsöluverðmæti byggingaréttarins hafi numið nærri tveimur milljörðum króna. Kostaði það RÚV 495 milljónir til að gera lóðina söluhæfa.

Í skýrslunni segir að það sé athyglisvert að Reykjavíkurborg geri ekki kröfu um þátttöku RÚV í stofnkostnaði innviða, en það er sérstaklega tekið fram í samningnum. Framkvæmdaraðili á lóðinni greiddi borginni alls 523 milljónir króna í gatnagerðargjöld.

Lóðin sem um ræðir er 5,9 hektarar, sem er nokkru stærra en Útvarpshúsið að flatarmáli.

Upphaf málsins má rekja til erindis sem borgin sendi á ríkisstjórnina árið 2013 um ríkislóðir til að byggja á. Lóðin í kringum Útvarpshúsið var sú fyrsta sem samningar náðust um. Fram kemur í svari borgarinnar við fyrirspurn Fréttablaðsins að Ríkisútvarpið ohf. hafi verið skráður eigandi lóðarinnar í heild sinni. Reykjavíkurborg átti ekki rétt á að afturkalla lóðina vegna ákvæða í samningi frá 1995, sem var breytt útgáfa samnings frá 1990 sem kvað á um að borgin fengi lóðina aftur árið 2040.

Það hafi verið sameiginlegir hagsmunir beggja að vinna nýtt skipulag og fjölga íbúðum á svæðinu. Reykjavíkurborg fékk land til að þétta byggð á, 20 prósent af byggingaréttinum og rétt til byggingar félagslegra íbúa.
Tengdar fréttir

Stjórn RÚV undirbýr stofnun dótturfélags

Ríkisútvarpið brýtur lög með því að vera ekki með samkeppnisrekstur í dótturfélagi. Vinnuhópur um stofnun dótturfélags verður skipaður í næstu viku. RÚV hefði orðið ógjaldfært ef ekki hefði komið til lóðasala í Efstaleiti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.