Innlent

Ákall til stjórnvalda um stórátak í vegamálum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Magnús Hlynur Hreiðarsson.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar segir íbúa á nálum yfir lélegu vegakerfi í gegnum sveitarfélagið og á þjóðvegi eitt þar sem alvarlegt rútuslys varð á fimmtudaginn. Bæjarstjórinn krefst úrbóta. 

Rútuslysið á fimmtudaginn var í Sveitarfélaginu Hornafirði á þjóðvegi númer eitt við Hofgarða, skammt norðan Fagurhólsmýrar. Matthildur hefur miklar áhyggjur af vegamálum innan sveitarfélagsins.

„Í okkar sýslu eru flestar brýr í landinu, þ.e. einbreiðar brýr og vegirnir eru mjög mjóir eins og þarna var, þar eru t.d. engar vegaaxlir. Að mæta flutningabílum, sem aka mikið þessa vegi, það er ekkert grín fyrir þá sem eru ekki vanir að keyra þá, þannig að það er orðið löngu tímabært að færa þennan veg  niður á sand og það er löngu orðið tímabært að breikka vegina okkar“, segir Matthildur.

Rútuslysið á fimmtudaginn var í Sveitarfélaginu Hornafirði við Hofgarða, skammt norðan Fagurhólsmýrar.Magnús Hlynur
Matthildur segist vera hugsi yfir allri umferð ferðamanna um vegina á sama tíma og þeir eru mjög lélegir og þoli varla umferðina sem á þeim er. Hún segir íbúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar hafa miklar áhyggjur af stöðu mála.

„Já, íbúarnir eru það, íbúarnir eru ekki eins öruggir að keyra þjóðveginn til Reykjavíkur eins og þeir voru, aðallega vegna mikillar umferðar og það er fjöldi ferðamanna á svæðinu og þeir aka kannski ekki alltaf eftir aðstæðum“.

Bæjarstjórinn er með ákall til stjórnvalda í vegamálum. „Það þarf bara að gera stórátak í vegamálum yfirleitt eins og þekkt er og það þarf að gera stórátak í að eyða einbreiðum brúm“, segir bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×