Að verulegu leyti veipunni að þakka
Þetta les Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir út úr nýútkomnum talnabrunni Landlæknisembættisins. Hann segir engan vafa á leika að þetta megi einkum þakka tilkomu rafrettunnar eða veipunnar, eins og hann kýs að kalla raftækið sem framleiðir gufu með nikótíni og margir hafa fengið sér í stað sígarettunnar.Guðmundur Karl hefur látið mjög til sín taka í umræðunni um veipuna og telur yfirvöld vilja mála yfir þá staðreynd að henni megi þakka að verulegu leyti það að nú eru reykingar minni á Íslandi en þekkist í hinum vestræna heimi.

Sala á tóbaki hrunið frá árinu 2008
„Ég kallaði eftir sölutölum tóbaks frá ÁTVR. Sígarettusala hefur hrunið um 50 prósent frá 2008 til vorra tíma. Algjör snilld,“ segir Guðmundur Karl. Í þeim tölum kemur einnig fram að sala á snusi hefur aukist til samræmis við það.„Reykingarnar eru hríðfallandi eins og við höfum aldrei áður séð séð. Stærstu orsakavaldarnir eru munntóbakið og veipurnar sem eru klárlega að hreinsa reykingarnar í burtu.“

Fleiri veipa færri reykja
Guðmundur Karl lítur til þess að notkun veipa hefur aukist, og enn er horft til talnabrunns Landlæknisembættisins. Dagleg notkun veipa meðal 18 ára og eldri mældist 4 prósent árið 2017 sem samsvarar því að um það bil 10 þúsund manns hafa notað veipur daglega ef tekið er mið af þjóðinni allri. Svipað hlutfall, eða um 4 prósent, notaði veipur sjaldnar en daglega.„Samtals veipa því 20.000 manns. Þetta er aukning frá sambærilegri mælingu árið 2016 þar sem tæplega 3 prósent sögðust nota veipur daglega og önnur 3 prósent sjaldnar en daglega eða samtals um 15 þúsund manns í heildina,“ segir Guðmundur Karl sem lítur á veipur sem mikla blessun fyrir lýðheilsu almennt. Kraftaverk reyndar.