Innlent

Segja um­skurðar­frum­varpið skila­boð um að gyðingar og múslimar séu ó­vel­komnir á Ís­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Hart hefur verið deilt um ágæti frumvarps Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. Í því er lagt til að allt að sex ára fangelsi liggi við því að umskera drengi.
Hart hefur verið deilt um ágæti frumvarps Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. Í því er lagt til að allt að sex ára fangelsi liggi við því að umskera drengi. Vísir/Getty
Trúarhópar kristinna manna, gyðinga og múslima vara við umskurðarfrumvarpi sem liggur fyrir Alþingi í sameiginlegri yfirlýsingu. Verði frumvarpið að lögum brjóti það gegn grunvallarréttindum trúfrelsis og sendi skilaboð um að gyðingar og múslimar séu ekki velkomnir á Íslandi.

Í sameiginlegri yfirlýsingu samtaka kristinna manna, múslima og gyðinga sem Kirknaráð Evrópu (CEC) og Kaþólska biskuparáðið í Evrópu (CCEE) sendi frá sér í dag lýsa þau yfir áhyggjum af frumvarpinu sem myndi gera umskurð ungra drengja sem ekki er gerður af læknisfræðilegum ástæðum refsiverðan.

Samtökin segja að umskurður sé hefð sem hafi verið stunduð í þúsundir ára í trúarsamfélögum af ýmsum toga. Athöfnin sé ekki valkvæð heldur sé hún kjarni trúariðkunarinnar.

„Það er með þessari tilteknu trúarathöfn sem karlkyns börn eru boðin velkomin inn í trúarbrögð sín sem sér þeim fyrir tákni um sáttmála guðs við mannkynið. Fyrir þessi samfélög er hún grundvallartrúartjáning,“ segir í yfirlýsingunni.

Gera samtökin lítið úr rökum um að umskurður sé óásættanlegt inngrip í líkama ósjálfráða barna. Aðgerðin sé lögleg og gerð á viðurkenndan hátt þannig að heilsu barnsins sé ekki stefnt í hættu. Ekki sé því hægt að réttlæta að skerða trúfrelsi fólks með hlutlægum hætti.

Vara samtökin við því að þingmenn samþykki frumvarpið. Það myndi jafngilda því að banna tvö heimstrúarbrögð, gyðingdóm og múslimatrú, og fylgjendur þeirra. Ísland fengi þannig á sig blæ útlendingaandúðar sem sé sérstaklega varhugarvert í ljósi vaxandi gyðinga- og múslimaandúðar í heiminum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×