Erlent

Þinghúsið á Tonga eyðilagt eftir fellibylinn Gitu

Atli Ísleifsson skrifar
Þinghúsið á Tonga var rúmlega aldargamalt.
Þinghúsið á Tonga var rúmlega aldargamalt. Vísir/AFP
Þinghúsið á eyríkinu Tonga í Kyrrahafinu gjöreyðilagðist þegar fellibylur gekk yfir eyjaklasann í nótt en veðrið er það versta sem skollið hefur á landinu í rúm sextíu ár, eða síðan mælingar hófust.

Fellibylurinn Gita var skilgreindur sem fjórða stigs fellibylur þegar hann gekk á land og olli miklu tjóni. Rafmagn fór af eyjunni og þök fuku af húsum.

Neyðarástandi hafði verið lýst yfir á Tonga áður veðrið skall á og þúsundir íbúa höfðust við í neyðarskýlum sem komið hafði verið upp víðs vegar um eyjaklasann.

Tonga samanstendur af 170 litlum eyjum, en ríkið er austur af Fiji og norður af Nýja-Sjálandi. Engar fregnir hafa borist af manntjóni.

Gita olli miklu tjóni á Tonga.Vísir/AFP
Hundrað ára gamalt

Þinghúsið var hundrað ára gamalt og óvíst er hvar þing mun koma saman á meðan byggingin verður endurreist. Einn þingmaður Tonga sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að það væri sorglegt að sjá þinghúsið fjúka þvínæst á haf út, en bætti við að margsinnis hafi verið lagðar fram þingsályktunartillögur um að reisa nýtt þinghús sem ávallt hafi verið felldar en að nú eigi menn engan annan kost í stöðunni en að ráðast í verkefnið.

Fellibylurinn Gita er enn að sækja í sig veðrið og er búist við að hann verði orðinn að fimmta stigs byl þegar hann skellur á Fiji á næstu klukkustundum, en þó er vonast til að veðrið fari framhjá helstu þéttbýlisstöðum þar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.