Innlent

Sólveig Anna nýr formaður Eflingar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
A-listinn fékk 519 atkvæði en B-listi Sólveigar Önnu 2099 atkvæði.
A-listinn fékk 519 atkvæði en B-listi Sólveigar Önnu 2099 atkvæði. Vísir/Ernir
Sólveig Anna Jónsdóttir er nýr formaður Eflingar stéttarfélags eftir að B-listinn hafði betur gegn A-listanum í kosningum til stjórnar félagsins með 80 prósent greiddra atkvæða. Niðurstöður lágu fyrir nú um miðnætti. A-listinn fékk 519 atkvæði en B-listi Sólveigar Önnu 2099 atkvæði. Kosningin stóð yfir í tvo daga og lauk kosningunni klukkan 20 í kvöld.

„Nei, ég átti ekki von á þessu,“ segir Sólveig í viðtali við Vísi um yfirburðarsigurinn.

„Við vorum farin að leyfa okkur að vera bjartsýn en auðvitað bjuggumst við ekki við þessu. Þetta er ótrúlegt en við erum þá komin með umboð frá þeim sem kjósa okkur að gera það sem við höfum verið að tala um. Að heyja þessa róttæku, markvissu og herskáu stéttarbaráttu.“

Í fyrsta sinn í sögu félagsins börðust tveir listar um hylli kjósenda. Ingvar Vigur Halldórsson var formannsefni A-listans, en Sólveig Anna var formannsefni B-listans.

Óhætt er að segja að nokkuð föst skot hafi gengið á milli fylkinganna tveggja í kosningabaráttunni.

Frambjóðendur A-listans hafa meðal annars gagnrýnt stuðning einstaklinga í sósíalistaflokknum við B-lista Sólveigar en á móti hafa frambjóðendur B-listans sagt ójafnræði ríkja í baráttunni og að núverandi stjórn Eflingar standi ótvírætt með A-listanum.

Sjá einnig: Sólveig í skýjunum með sigurinn en mætir á leikskólann í fyrramálið

Í gær greindi Vísir frá yffirlýsingu tveggja einstaklinga sem lýstu því hvernig starfsmaður á skrifstofu Eflingar, sem sá um kosningu utan kjörfundar, reyndi að telja konu sem er af erlendu bergi brotin inn á að kjósa A-listann. Í yfirlýsingu í gærkvöldi sagði Magnús M. Norðdahl, formaður kjörstjórnar Eflingar, að þeir starfsmenn sem rætt hafi verið við vegna meints áróðurs á kjörstað hafi ekki kannast við atvikið.

Þeir sem voru með Sólveigu Önnu á lista og taka sæti í stjórn Eflingar eru Magdalena Kwiatkowska hjá Café Paris, Aðalgeir Björnsson, tækjastjóri hjá Eimskip, Anna Marta Marjankowska hjá Náttúru þrif, Daníel Örn Arnarsson hjá Kerfi fyrirtækjaþjónustu, Guðmundur Jónatan Baldursson, bílstjóri hjá Snæland Grímsson, Jamie Mcquilkin hjá Resource International ehf. og Kolbrún Valvesdóttir, starfsmaður búsetuþjónustu Reykjavíkurborgar.

Á kjörskrá voru 16.578 félagsmenn og af þeim greiddu 2.618 atkvæði.

B listi Sólveigar Önnu Jónsdóttur fékk 2099 atkvæði.

A listi stjórnar og trúnaðarráðs fékk 519 atkvæði.

Auðir seðlar voru 6 og ógildir voru 4.


Tengdar fréttir

Látum ekki hafa okkur að fíflum

Barbara er í tveimur störfum, stundum vinnur hún nánast allan sólarhringinn. Daníel segist vera að missa af börnunum sínum, vinnudagurinn er svo langur. Guðmundur starfar sem rútubílstjóri á lágum launum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.