Erlent

Bandaríkjastjórn leyfir innflutning á veiðiminjagripum úr fílum þvert á loforð Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandarísk stjórnvöld vilja að þarlendir sportveiðimenn geti flutt inn gripi eins og fílabein frá rándýrum veiðiferðum til Afríku.
Bandarísk stjórnvöld vilja að þarlendir sportveiðimenn geti flutt inn gripi eins og fílabein frá rándýrum veiðiferðum til Afríku. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur leyft innflutning á fílabeini og öðrum veiðiminjagripum úr fílum. Trump hafði virst snúa við ákvörðun þessa efnis í fyrra eftir harða gagnrýni. Þá sagði hann að erfitt yrði fyrir nokkurn um að  fá hann til að skipta um skoðun.

Upphaflega ætlaði innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna að afnema bann við innflutningi á gripum úr fílum frá Simbabve og Sambíu í nóvember. Barack Obama, fyrrverandi forseti, kom banninu á til að verja fílana sem eru í útrýmingarhættu.

Áformin vöktu talsverða reiði. Svo mikla að Trump og ráðuneytið bökkuðu og ákváðu að fresta afnámi bannsins þar til málið hefði verið skoðað frekar. Trump lýsti fílaveiðunum meðal annars sem „hryllingssýningu“.

Þá höfðu myndir birst af eldri syni forsetans með hala dauðs fíls í veiðiferð í Simbabve árið 2011.

Ákvörðunin farið hljótt

Washington Post greinir frá því að ráðuneytið hafi leyft innflutninginn með ákvörðun 1. mars sem hefur farið hljótt. Samkvæmt henni geta veiðimenn fengið leyfi til að flytja inn veiðiminjagripi. Afstaða sé tekin til hvers máls fyrir sig.

Veiðiþjófnaður, eftirspurn eftir fílabeini og tap búsvæða hefur valdið því að afrískum fílum hefur fækkað úr um fimm milljónum fyrir hundrað árum niður í aðeins 400.000.

Skoðun bandaríska innanríkisráðuneytisins hefur verið sú að hægt væri að selja leyfi til að veiða fílana til að fjármagna verndun þeirra.

Bandaríska blaðið segir að fílaveiðiferðir séu ekki á færi venjulegra Bandaríkjamanna. Ferðirnar kosti um 50.000 dollara, jafnvirði um fimm milljóna króna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.