Erlent

Sarkozy ákærður fyrir spillingu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nicolas Sarkozy, þáverandi forseti Frakklands, og Muammar Gaddafi, þáverandi einræðisherra í Líbíu, í París árið 2007.
Nicolas Sarkozy, þáverandi forseti Frakklands, og Muammar Gaddafi, þáverandi einræðisherra í Líbíu, í París árið 2007. vísir/getty
Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, var í dag ákærður fyrir spillingu og að hafa fjármagnað kosningabaráttu sína á ólöglegan hátt. Talið er að þáverandi einræðisherra Líbíu, Muammar Gaddafi, hafi látið fé af hendi rakna í kosningasjóði Sarkozy árið 2007. Greint er frá málinu á vef frönsku fréttastofunnar AFP.

Eftir fimm ára rannsókn og tvo daga af yfirheyrslum yfir Sarkozy á meðan hann var í haldi lögreglu telja dómarar í málinu að þeir hafi nú næg sönnunargögn til þess að ákæra forsetann fyrrverandi. Sarkozy var handtekinn í gær en látinn laus í kvöld. Hann neitar sök.

Sonur Gaddafi haldið því fram að Sarkozy hafi fengið fé frá föður hans

Sarkozy var forseti Frakklands á árunum 2007 til 2012. Auk spillingar og ólöglegrar fjármögnunar í kosningabaráttunni er hann einnig ákærður fyrir að leyna opinberu fé Líbíu. Sarkozy hefur sex mánuði til að áfrýja ákærunni. Talið er líklegt að hann geri það og þá þurfa dómararnir í málinu að ákveða hvort sönnunargögnin gegn forsetanum fyrrverandi séu næg til þess að fram fari réttarhöld yfir honum.

Rannsakendur hafa unnið að málinu frá árinu 2013 en ýmsir sem tengjast Gaddafi hafa sagt að Sarkozy hafi þegið peninga frá honum árið 2007. Fjórum árum síðar studdi Frakkland, undir forystu Sarkozy, uppreisnarmenn í Líbíu í arabíska vorinu sem steyptu Gaddafi af stóli. Á meðal þeirra sem hafa haldið því fram að Sarkozy hafi tekið við fé frá Gaddafi er sonur einræðisherrans , Seif al-Islam.

Ekki fyrsta málið sem Sarkozy er ákærður fyrir

Sarkozy hefur áður sætt ákæru í tveimur öðrum málum. Annað snýr að fölsuðum reikningum sem gefnir voru út til þess að hylma yfir að of miklu fé hafði verið eytt í kosningabaráttu hans árið 2013. Hitt málið tengist dómara og snýr að áhrifum sem Sarkozy á að hafa reynt að beita.

Flokksfélagar Sarkozy virðast styðja hann og hefur einn þeirra látið hafa það eftir sér að hann telji að málið allt sé hefndaraðgerð fyrrum stjórnvalda í Líbíu og frönsku dómarastéttarinnar sem eldaði grátt silfur við Sarkozy þegar hann sat á forsetastól.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×