Erlent

Bush eldri um eigin líkræðu: „Þetta er svolítið mikið um mig, Jon“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jon Meacham  heilsar George W. Bush, syni George H.W. Bush við jarðarförina í dag.
Jon Meacham heilsar George W. Bush, syni George H.W. Bush við jarðarförina í dag. Getty/Alex Brandon
Skömmu áður en George H.W. Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna lést, fékk hann að heyra líkræðuna sem sagnfræðingurinn Jon Meacham hafði samið um Bush og áformaði að flytja við jarðarför forsetans fyrrverandi sem haldin var i dag. Viðbrögðin voru óborganleg.

„Þetta er svolítið mikið um mig, Jon,“ segir Washington Post að Bush hafi sagt við Meacham eftir að hafa hlýtt á lofræðuna. Meacham þekkti Bush betur en flestir enda skrifaði hann ævisögu hans sem kom út árið 2015. Hann var meðal þeirra fjögurra sem fengnir voru til þess að minnast Bush við jarðarförina.

Í ræðunni fór Meacham yfir ævi Bush og sagði hann að forsetinn fyrrverandi hafi verið einn af merkustu mönnum 20. aldarinnar sem hafi haft gildi George Washington, John Adams, Harry Truman og Frank Delano Roosevelt, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, að leiðarljósi í starfi sínu.

Líkt og Vísir greindi frá fyrr í kvöld kom Ísland einnig við sögu í jaðarförinni en Brian Mulroney, fyrrverandi forsætisráðherra Kanada, gerði góðlátlegt grín að viðbrögðum Bush við að hafa hlustað á langa ræðu Steingríms Hermannssonar, þáverandi forsætisráðherra Íslands, á NATO-fundi árið 1989.

Viðstaddir jarðarförina voru þeir forsetar og varaforsetar Bandaríkjanna sem enn eru á lífi. Á fremsta bekk sátu Donald Trump og eiginkona hans Melania, ásamt Barack og Michelle Obaba, Bill og Hillary Clinton og Jimmy og Rosalynn Carter. Fjölmiðlar ytra hafa fjallað um að andrúmsloftið á milli Donald Trump og Hillary Clinton, sem kepptu um forsetaembættið árið 2016, hafi verið við frostmark en þau litu ekki hvort á annað er Trump mætti til jarðarfararinnar.


Tengdar fréttir

George Bush eldri látinn

George H.W. Bush var 41. forseti Bandaríkjanna og þjónaði í embætti í eitt kjörtímabil. 1989 til 1993

Þungavigtarfólk stjórnmálanna minnist George Bush eldri

Stjórnmálafólk víðs vegar að úr heiminum minnist nú George H.W. Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Hann lést upp úr klukkan tíu í gærkvöldi á heimili sínu í Houston í Bandaríkjunum, 94 ára að aldri. Meðal þeirra sem hafa minnst forsetans eru ýmist sitjandi eða fyrrverandi þjóðarleiðtogar þó nokkurra ríkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×