Menning

Gleymist oft að kynin eru ólík

Jakob Bjarnar skrifar
Óhætt er að segja að gengi Birgittu á rithöfundavellinum hafi verið með miklum ágætum. Yfir 30 þúsund eintök bóka hennar hafa selst.
Óhætt er að segja að gengi Birgittu á rithöfundavellinum hafi verið með miklum ágætum. Yfir 30 þúsund eintök bóka hennar hafa selst. visir/vilhelm

Fyrir um fjórum árum fór Birgitta Haukdal, þá og enn ein ástsælasta söngkonum landsins, á fund útgefanda í Reykjavík og lagði niður fyrir hann nákvæma áætlun sem sneri að útgáfu barnabóka eftir hana. Útgefandinn hafði sjaldan eða aldrei séð annað eins og þótti mikið til koma. Útgáfuáætlunin hefur staðist eins og stafur á bók, nú hafa verið gefnar út tugur barnabóka eftir Birgittu. Hún er á fáeinum árum orðin viðurkenndur barnabókahöfundur og hefur selt bækur í bílförmum, eins og það heitir á bransamáli. Þær hafa samtals farið í yfir 30 þúsundum eintaka.



Lengi hefur staðið til að ræða við Birgittu um rithöfundaferil hennar, þá sem lið í umfjöllun Vísis um jólabókaútgáfuna, en til að koma því við hefur þurft nokkrar atlögur. Bæði er að Birgitta hefur í mörg horn að líta og svo gerist hið óvænta að ný bók Birgittu, Lára fer til læknis, varð ein heitasta bók þessarar bókavertíðar. Í síðustu viku var þjóðin gripin írafári; ólga var meðal hjúkrunarfræðinga og þeirra sem telja staðalímyndir víðtækt og djúpstætt vandamál í samfélaginu sem hnutu um nýútkomna bók eftir Birgittu.



Í bókinni Lára fer til læknis er hjúkrunarfræðingur nokkur kallaður „hjúkrunarkona“ og í kjól sem þótti út frá staðalímyndarfræðum stórskaðlegt. Á hinn bóginn voru margir sem töldu þetta hina mestu vitleysu, nokkrum þótti þetta svo fráleitt að þeir lögðu til að fólk sameinaðist um að kaupa bækur Birgittu. Og ef til vill mátti merkja viðbrögð við því ákalli á fyrsta bóksölulista ársins hvar Birgitta átti tvær bækur. Allir fjölmiðlar landsins voru á eftir Birgittu og vildu fá viðbrögð og þetta viðtal, sem lögð voru drög að fyrir upphlaupið mikla, fór fram í nokkrum lotum vegna allra látanna.

Vonda stjúpan í Mjallhvíti

Birgitta hefur svarað því hvernig þetta hjúkrunarfræðingamál horfir við sér, sagt að sér þyki leitt ef hún hafi sært einhverja með þessari framsetningu en ljóst má vera að henni er nokkur raun að þessari umræðu. En, það verður ekki undan því vikist að tæpa á málinu sem öðrum þræði snýr að stöðu barnabóka. Eru þær fyrst og síðast uppeldisfræði í dulargervi sem þurfa að lúta strangri forskrift ríkjandi viðhorfa? Það hefur þá sáralítið með bókmenntir að gera í sjálfu sér. Minna en ekkert. Eða teljast barnabækur listsköpun? Sem þá lúta lögmálum skáldskaparins?

Birgitta telur einsýnt að barnabækur lúti lögmálum skáldskaparins og það sé fyrst og síðast foreldra að fara yfir efni bóka með börnum sínum.visir/vilhlem

„Auðvitað þarf að gera greinarmun á kennsluefni og barnasögum. Ég var síðast í gærkvöldi að lesa Mjallhvíti fyrir dóttur mína sem skildi engan veginn af hverju í ósköpunum fósturmamma Mjallhvítar – stjúpan – vildi drepa hana af því að hún var sæt. Þegar ég las þessa sögu hugsaði ég með mér: Hvað er ég að lesa fyrir barnið mitt? Hún hefur aldrei heyrt um það að einhver drepi annan enda barnið bara þriggja ára. Sem betur fer getum við valið sjálf hvað við kaupum og lesum fyrir börnin okkar og það er okkar foreldra að ritskoða hvað við viljum að börnin okkar lesi, spili eða horfi á,“ segir Birgitta.



Hún vill helst ekki eyða mörgum orðum á þetta mál, vill ekki rífa plástra af neinum sárum. Og vonar að þessi læti sé að baki.

Lára og Ljónsi spegla ævintýri fjölskyldunnar

Þegar Birgitta er spurð hvernig það hafi komið til að hún fór að fást við að setja saman barnabækur kemur á daginn að sonur hennar er þar í lykilhlutverki.



„Ég flutti til Barcelona ásamt manninum mínum og syni og dvöldum við þar í þrjú ár. Á þessum tíma var drengurinn okkar 2-5 ára. Ég var mikið að fljúga heim í hin ýmsu verkefni og ákvað að heimsækja bókabúðir í hverri ferð til að eiga nýjar íslenskar barnabækur handa honum til að lesa á kvöldin og passa uppá íslenskuna. Mér fannst alltaf erfiðara og erfiðara að kaupa bækur sem hittu í mark þar sem annaðhvort vantaði fleiri myndir í þær til að hann héldi athygli eða sögurnar/ævintýrin voru of flókin,“ segir Birgitta.

Börn Birgittu eru kveikja verka hennar.úr einkasafni

Smám saman fór sonur hennar að biðja hana að segja sér sögur fremur en að lesa fyrir sig.



„Þá var mér hugsað til pabba míns sem sagði Víkingi Brynjari sögur í gegnum Skype reglulega og voru þær yfirleitt um daglegt líf barna. Víkingi leið eins og að hann væri söguhetjan í þeim öllum og var mjög áhugasamur. Ég fór því að segja honum sögur á kvöldin um strákinn sem fór í skíðaferð með fjölskyldunni eða í flugferð til Íslands og svo framvegis. Þegar við höfðum búið úti í tvö ár hugsaði ég: Ég ætla að setjast niður og gera hina fullkomnu barnabók fyrir barnið mitt og sjá hvað gerist. Þannig urðu Lára og Ljónsi til og ævintýri þeirra sem eiga margt sameiginlegt með ævintýrum okkar fjölskyldunnar.“



Sögurnar koma sem sagt til Birgittu úr daglega lífinu, hennar og barna sinna og svo minningum úr æsku.



„Ég ákveð sjaldan um hvað ég ætla að skrifa þegar ég sest niður heldur leyfi því að koma til mín. Sem sagt sest niður í ró og næði og byrja. Upplifi einhvers konar íhugun eða núvitund „Mindfulness“ í því að gleyma mér við skrif.“



Segðu mér, pælirðu mikið í frásagnarhætti og slíku eða leyfir þú þessu meira að flæða?

„Yfirleitt leyfi ég þessu að flæða og gleymi mér. Þegar sagan endar les ég hana yfir með tilliti til þess að hún er oftast lesin fyrir börn og skiptir mig miklu máli að börnin njóti og skilji.“

Prinsessan sem vildi ekki verða prinsessa

Birgitta á það þannig sameiginlegt með ýmsum barnabókahöfundum öðrum að verk hennar eiga sér kveikju í sagnaheimi sem verður til í samskiptum barna og foreldra.



En, hafði þér aldrei dottið í hug fyrr á lífsleiðinni þetta að þú  vildir kannski reyna fyrir þér á ritvellinum einn daginn? Hvernig var þetta í skóla, hafðirðu gaman af stíl og íslensku?

Tvær nýjustu bækur Birgittu en ævintýrin sem þar birtast eiga sér ákveðna samsvörun í því sem gerist í fjölskyldu Birgittu.

„Það er gaman að segja frá því að sem barn skrifaði ég bækur ásamt vinkonum mínum og stofnuðum við bókasafn og leigðum út bækurnar okkar til hver annarrar, keyptum stimpla og spjöld og lögðum mikinn metnað í svo að kannski hefur þetta blundað í mér á bakvið texta og lagasmíðina,“ segir Birgitta, en eftir hana liggja mörg lög og textar sem hafa notið mikilla vinsælda einkum með hljómsveitinni Írafár.



„Ég man líka eftir því fyrir 20 árum að hafa skrifað barnabók um prinsessuna sem vildi ekki vera prinsessa. Hún vildi bara vera venjuleg og fá að ráða hvað hún gerði. En ég var ekki nógu ánægð með þá sögu og hún fór bara ofan í skúffu og kom aldrei aftur upp. Án þess að ég hafi gert mér grein fyrir því samt. Sem krakki og sem unglingur.“

Þorgrímur Þráinsson áhrifavaldur

Þannig má segja að rithöfundurinn hafi lengi blundað í Birgittu án þess að hún hafi almennilega gert sér grein fyrir því, ekki fyrr en með því að líta um öxl. Hvaða bækur voru þetta sem þú varst einkum að lesa sem barn?

„Mamma las mikið fyrir okkur hinar ýmsu barnabækur og ævintýri og söng líka mikið með okkur. En, ég man hvaða bækur kveiktu áhuga minn á því að lesa annað en myndabækur og Andrésblöð og voru það bækurnar hans Þorgríms Þráinssonar Tár, bros og takkaskór og Með fiðring í tánum.

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur hafði mikil áhrif á Birgittu.fbl/Anton Brink

Þarna var ég unglingur að lesa sögu um unglinga með sín vandamál og ástir og gat fundið mig í persónunum. Kannski þegar ég hugsa út í þetta núna er ég að gera það sama nema fyrir annan aldurshóp en hann.“



Þannig að það má segja að Þorgrímur sé áhrifavaldur rithöfundarins Birgittu?

„Allavega einn af þeim já.“



Fjöldinn allur af höfundum hefur byrjað sem barnabókahöfundar en fært sig svo yfir í að skrifa bækur ætlaðar fullorðnum. Er það eitthvað sem þú sérð fyrir þér? Stefnirðu á að skrifa „fullorðinsbók“?

„Ég hef ekki leitt hugann minn að því þar sem ég á ennþá lítil börn og elska að skrifa fyrir þau og sjá þau njóta. En enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér.“

Lofar engu um bækur fyrir fullorðna

Birgitta á níu ára dreng sem heitir Víkingur Brynjar og þriggja ára stúlku sem heitir Saga Júlía. Þannig að þú sérð það jafnvel fyrir þér að þú sem höfundur mjakir þér upp í aldri, það er markhópurinn fylgi þeirra aldri?

„Úff... ég veit það ekki. Kannski aldrei að vita þegar sú yngri eldist.“

Birgitta segist hafa velt því fyrir sér hvort ekki sé vert fyrir sig að sækja um listamannalaun. Hún gefur engin loforð um að hún muni með tíð og tíma skrifa bækur ætlaðar fullorðnum.visir/vilhelm

Þannig að ég næ ekki að kreista það út úr þér að þú stefnir með tíð og tíma á að skrifa bók ætlaða fullorðnum?

„Nei, ætli það,“ segir Birgitta og hlær við þeirri spurningu.



Hverjir eru þínir uppáhalds rithöfundar?

„Það er eins með rithöfunda og tónlistarmenn að ég á mér enga uppáhalds og er mikil alæta. Ég hef gaman af léttari bókmenntum þessa dagana sem ég get gleymt mér í og koma í stað bíómynda. Las í vetur bækurnar hans Ragnars Jónassonar Mistur og Drungi og naut þeirra, eins 100 bjartar sólir og Flugdrekahlauparann. Svo eitthvað sé nefnt. Ég les ekki daglega en veit þó ekkert betra en að liggja í baði með góða bók í skammdeginu.“

Mikilvægt að elta drauma sína

Sko, útgefandi þinn sagði mér, og honum þótti mikið til koma, að þú hafir á sínum tíma komið til sín og lagt upp nákvæma áætlun – þú varst í raun búin að sjá þetta alveg fyrir þér og þau plön hafa gengið upp eins og klukka. Ertu svona skipulögð?

(Birgitta hlær við þessari spurningu.)

Ég get verið leiðinlega skipulögð á ýmsum sviðum og síðan með allt í rugli á öðrum.

„En er það ekki bara það að vera mannlegur? Ég hef alltaf átt mér stóra drauma og reyni að trúa á sjálfa mig í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Sundum rekur maður sig á vegg en það er líka bara hollt og lærdómur í hverju höggi.“



Birgitta lýsir því að draumurinn sé að gera tólf bóka seríu og koma á fót bókaklúbb barnanna þar sem börnin fá bók í póstinum senda heim í heilt ár.

Birgitta hefur lengi verið ein af allra vinsælustu söngkonum landsins. Ýmsir þeir sem hafa gert garðinn frægan í í skemmtiiðnaðinum hafa skrifað barnabækur en það ætti ekki að þurfa að koma á óvart.visir/vilhelm

„Við vorum áskrifendur af svipuðum klúbbi þegar ég var barn og þvílík spenna að bíða eftir póstinum og að lesa nýju bókina. Þetta skapar fallegar minningar og góðar fjölskyldustundir og minnir foreldra á að njóta þess að lesa fyrir börnin sín. Að gefa barni svona gjöf í jóla-, afmælis- eða skírnargjöf er hin fullkomna gjöf að mínu mati. Því þar gefur þú barninu ekki bara bækur heldur samveru með foreldrum, systkinum eða ömmu og afa.“

Stuðningur lesendahópsins byr undir báða vængi

Nú í dag eru bækurnar orðnar tíu, átta Láru bækur sem hugsaðar eru fyrir börn á aldrinum 3-7 ára og tvær ungbarnabækur, þá fyrir 0-2 ára. Þannig að þú munt ná þessu tólf bóka takmarki á næsta ári?

„Úff, ég veit ekki. Sögurnar hafa ekki enn þá komið til mín. Ég ákveð yfirleitt ekki um hvað ég ætla að skrifa fyrir en ég sest og þær koma til mín. Vonandi næ ég að gera tvær til fjórar bækur í viðbót en það verður tíminn bara að leiða í ljós. Eitt veit ég að ég elska að skrifa og vinna þessar bækur og geri það af einskærri hugsjón.“



Nú vilja sumir halda því fram að barnabókum sé ekki sýnd nægjanleg virðing, hvernig snýr þetta að þér?

„Það eina sem ég heyri er gott frá foreldrum og börnum sem lesa bækurnar mínar og það er þeim að þakka að ég get haldið áfram að skrifa fleiri bækur. Mér berast fjölmargir póstar um að gera fleiri bækur sem er ótrúlega fallegt og mér þykir vænt um.

Stuðningur míns lesendahóps veitir mér byr undir báða vængi og hugrekki til að halda áfram að skrifa.

Kannski eru einhverjir úti í bæ sem bera enga virðingu fyrir mér sem höfundi og finnst það að vera barnabókahöfundur sé eitthvað verra, minna eða asnalegra en það að skrifa vísindaskáldsögur og það er bara smekkur þeirra. Ég hef allavega getað haldið mér frá þeim röddum. Ég tek starf mitt alvarlega þar sem ég er að skrifa fyrir börnin mín og kenna þeim á lífið í leiðinni.“  



Mikilvægi barnabóka

En, varðandi barnabækur almennt og stöðu þeirra; finnst þér, eins og ég sé oft kvartað undan, barnabókahöfundar ekki njóta nægjanlegrar virðingar?

„Ég held að allir geti verið sammála því að barnabækur fá ekki næga umfjöllun eða auglýsingu. Hvað auglýsinguna varðar er þjóðin fámenn og fáir geta ef einhver lifað á því að skrifa fyrir börn. Þar að leiðandi ekki til auka fjármagn fyrir auglýsingum og öðru kynningarefni.“

Birgitta hefur verið fulltrúi Íslands í Eurovision og voru vinsældir hennar árið 2003, þá er hún tók þátt í undankeppninni, slíkar að gárungarnir sögðu að hún hefði var þurft að syngja, hún hefði alltaf unnið.

Birgitta finnst meginatriðið þetta að bækur hennar fái ratað til sinna og segir að á hennar fyrsta fundi í Forlaginu hafi hún sagt að bækur hennar mættu ekki kosta meira en tvö þúsund krónur.



„Mér finnst mikilvægt að börnin lesi meira og oftar en í jólafríinu. Það skiptir mig líka máli að sem flestir geti keypt góða og fallega barnabók og lesið með börnunum sínum sem oftast. Við megum ekki gleyma því að barnabækur eru mikilvægar börnum á öllum aldri líka fyrir leikskólabörn. Mikilvægar fyrir málþroska þeirra og orðarforða sem og lestragetu þeirra þegar þau verða eldri. Ég er auðvitað enginn sérfræðingur í barnabókmenntum en það að börnin njóti góðrar stundar með bókunum mínum ásamt foreldrum sínum eða bara eitt í rólegheitum er dásamleg tilhugsun. Það er dásamlegt að skapa og það hittir mig beint í hjartastað ef einhver þarna úti nýtur þess sem ég skapa.“

Þessir frægu höfundar

Fyrir um þremur árum sagði Bubbi Morthens frá því, í viðtali vegna þá nýútkominnar ljóðabókar hans, að sér liði stundum í menningarkreðsunni eins og hann væri að troða sér í partí sem honum væri ekkert boðið í. Og væri kannski að draga til sín athygli af því að hann er frægur af öðrum vettvangi, dægurtónlistinni. Þú ert á þeim sama báti, finnst þér rithöfundar taki þér fagnandi eða af tortryggni?

Veistu ég hef ekkert hugsað út í það hvað eða hvort aðrir rithöfundar eru að tala um mig sín á milli eða hvað þeim finnst um mín skrif. Ég segi það einlæglega.

Já, þú ert ekkert mikið í að sækja upplestrarkvöld og útgáfupartí annarra höfunda?

„Nei, því miður þá er ég svo oft upptekin á kvöldin og um helgar að ég hef lítið gert af því. Auðvitað hef ég hitt marga höfunda hér og þar og í jólaboði Forlagsins svo eitthvað sé nefnt en ekkert fengið nema hrós frá þeim sem bera sig að mér.“



Svo ég haldi mig nú aðeins lengur við þetta, án þess að ég vilji vera að pína mikið en Bubbi taldi sig merkja að ýmsir menningarinnar menn teldu hann hafa forskot á aðra höfunda af því að hann er svo þekktur. Þið Bubbi eruð nú svolítið á sama báti með þetta?

„Kannski tekur fólk frekar upp bókina og virðir hana fyrir sér ef að það þekkir höfundinn. Hvort sem höfundurinn er þekktur rithöfundur, leikari eða tónlistarmaður. En það sem fær þig til að kaupa bókina eða aðrar bækur aftur eftir sama höfund hljóta að vera gæði bóka. Bækurnar mínar hafa verið lítið auglýstar en orðspor þeirra borist á milli barna og foreldra að mestu.“



Hefur hugsað sér að sækja um listamannalaun

Sko, þessu tengt en með öðrum hætti. Vísir birti fréttaskýringu fyrir skömmu sem byggði meðal annars á grein í Guardian, þar sem lagt er upp með að þekkt fólk sé að leggja undir sig barnabókageirann. Hver er þín skoðun á því sem haldið hefur verið fram að það skipti meiru máli, fyrir útgefandann þá, að höfundur sé þekktur en að handritið sé gott?

„Ekki má gleyma því að þekktir einstaklingar eru oft á tíðum listamenn sem elska að skapa og listin birtist í allskonar myndum. Ég er textahöfundur, lagahöfundur og söngkona. Þar segi ég sögur og skapa upplifun. Eins er ég menntaður söngkennari og hef kennt börnum og gert barnaplötu. Já, og fyrir utan það að eiga börn sjálf. Þetta hefur kennt mér margt.

Það að vera þekkt nafn er alls ekki nóg og mikil áhætta fyrir útgefanda að horfa einungis til þess.

Það er auðvelt að alhæfa að einhver selji fleiri bækur eða muni út af frægð sinni en erum við þá ekki að gera lítið úr mannskepnunni?“



Sko, hefurðu íhugað að sækja um listamannalaun eins og kollegar þínir Gunnar Helgason og Ævar vísindamaður, sem báðir njóta slíkra launa?

„Í sannleika sagt þá hef ég íhugað það þar sem ég vinn nær eingöngu við list og væri til í að láta gott af mér leiða í barnaskólum landsins. Aldrei að vita nema ég leggi meira í þannig vinnu í framtíðinni.“



Telur sig jafnréttissinna

Femínismi er fyrirbæri sem hefur verið afar fyrirferðarmikið, raunar einkennandi fyrir síðasta áratuginn eða svo. Ekki bara hér á landi heldur í öllum hinum vestræna heimi. Sumir femínistar gera kröfu til þess að listin taki mið af hugmyndafræði sinni, og líti til fyrirbæra eins og Bechtelprófs. Skilgreinir þú þig sem femínista?

Birgitta segist vera femínisti en hefur áhyggjur af því að orðið hafi fengið á sig of neikvæða merkingu.fbl/anton brink

„Því miður finnst mér búið að gera orðið femínisti neikvætt í hugum fólks sem það er alls ekki. Ég er að sjálfsögðu femínisti og stolt af því að vera kona sem stendur með sjálfri sér og jafnrétti kynjanna. En stundum virðist það gleymast í umræðunni að kynin eru ólík og það að við séum ólík er frábært. Öll eigum við rétt á því sama. Við verðum að muna að við erum öll í sama liðinu og eigum að styðja hvert við annað. Kannski er jafnréttissinni betra orð yfir mig ef að það er til.“

Hin dásamlega Anahit

Bækur þínar, eins og gjarnan er með barnabækur, er samspil mynda og texta. Hvað getur þú sagt mér um samstarf þitt við Anahit Aleqsanian myndlistarmann?

„Ég lagði ofsalega mikla vinnu við að finna rétta manneskju til að vinna með mér að myndskreytingunum í bókunum. Ég var með sterkar hugmyndir og sýn á það hvernig ég vildi gera þetta.

Ég leitaði á Íslandi fyrst en fann engan sem var að teikna í þessari líkingu.

Þá leitaði ég á Spáni en stíllinn þar er ekki sá sem ég var með í huga. Eftir mikla vinnu fann ég rússneska konu og hóf störf með henni. Mig grunar að hún hafi gefist upp á mér þar sem ég vildi vera inni í hverjum einasta lit og karakterum að hún hætti að svara mér og lét sig hverfa.“



Birgitta segir þetta hafa verið lán í óláni. Því í framhaldi af þessu lagði hún inn auglýsingu á umboðssíðu listamanna.



„Anahit svaraði kallinu. Hún er alveg dásamleg og við vinnum mjög vel saman. Með hverri bókinni náum við að gera betur í teikningunum að mínu mati.“



Hvað er hún gömul?

„Já. Þegar stórt er spurt. Það hef ég aldrei spurt hana út í. Eitthvað aðeins yngri en ég, sennilega. Um og yfir 30.“



Birgitta er afar ánægð með samstarfið við Anahit hina armensku og segir það ganga eins og í lygasögu. En, það má ef til vill heita til marks um nýja veröld hvar landamæri eru orðin lúin og máð að allt þeirra samstarf fer fram í gegnum tölvur og síma.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×