Erlent

Lifði af í eyðimörkinni eftir bílveltu

Andri Eysteinsson skrifar
Frá eyðimörkinni í Arizona.
Frá eyðimörkinni í Arizona. Getty/ Patrick Gorski
53 ára gömul kona lifði af sex daga í eyðimörk Arizona ríkis í Bandaríkjunum eftir að hún hafði lent í bílveltu.

Konan var að sex daga þrekraun lokinni fundin af mönnum sem voru að leita að kú. Guardian greinir frá.

Konan, sem hefur ekki verið nafngreind, hafði verið á ferðinni nærri Wickenburg í Arizona, 100 kílómetra norður af Phoenix, þekktustu borg fylkisins.

Konan missti stjórn á bíl sínum sem valt niður 15 metra háa hlíð þar sem bíllinn stöðvaðist á tré. Meiðsli konunnar voru veruleg, brotin rifbein, höfuðáverkar og öxlin farin úr lið. 

Meiðslin ollu því að konan ákvað að halda sér kyrri fyrir í bílnum fyrstu dagana eftir slysið en ákvað að lokum að leita sér hjálpar. Konan komst tæplega 500 metra áður en hún hrundi niður vegna ofþornunar.

Þar rákust Dave Moralez, sem starfar á búgarði í nágrenninu, ásamt öðrum sem voru að leita að kú sem hafði sloppið. Á meðan leit þeirra stóð yfir ráku þeir augun í bílinn og fundu þar fótspor sem leiddu þá til konunnar. 

Kallað var eftir aðstoð og konan flutt með þyrlu til næsta sjúkrahúss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×