Erlent

Fyrsta aftakan með rafmagnsstól í fimm ár

Atli Ísleifsson skrifar
Dómstóll dæmdi Edmund Zagorski til dauða árið 1984 fyrir morð á tveimur mönnum í tengslum við fíkniefnaviðskipti.
Dómstóll dæmdi Edmund Zagorski til dauða árið 1984 fyrir morð á tveimur mönnum í tengslum við fíkniefnaviðskipti. Vísir/AP/Getty
Fangi, sem hafði varið dæmdur til dauða fyrir tvö morð, var tekinn af lífi  með rafmagnsstól í Tennessee í Bandaríkjunum í gær, eftir að hæstiréttur landsins hafði synjað beiðni um frestun.

Hinn 63 ára Edmund Zagorski var úrskurðaður látinn klukkan 19:26 að staðartíma. Aðspurður um hvort hann hefði eitthvað að segja að lokum, svaraði hann „let‘s rock“.

Zagorski er fyrsti dauðadæmdi maðurinn til að vera tekinn af með rafmagnsstól í Tennessee frá árinu 2007 og í Bandaríkjunum frá 2013. Dómstóll dæmdi Zagorski til dauða árið 1984 fyrir morð á tveimur mönnum í tengslum við fíkniefnaviðskipti.

Af tvennu illu

Málið hefur vakið sérstaka athygli í Bandaríkjunum þar sem Zagorski bað um það í síðasta mánuði að verða tekinn af lífi í rafmagnsstól til að sleppa við að fá eitursprautu. Sagði hann að af tvennu illu kysi hann rafmagnsstóllinn.

Í Tennessee fá dauðadæmdir fangar að velja með hvaða aðferð þeir verða teknir af lífi. Zagorski lét hafa eftir sér að það bryti í bága við stjórnarskrá að þurfa að velja milli tveggja villimannslegra aftökuaðferða. Þá sagði hann að beiting eitursprautu og rafmagnsstóls væru stjórnarskrárbrot í sjálfu sér.

Fjórtán fangar frá 2000

Að sögn blaðamanns, sem var viðstaddur aftökuna, horfði Zagorski mestmegnis beint áfram þann tíma sem hann var í aftökuklefanum, en leit einnig stuttlega í kringum sig í klefanum í fangelsinu í Nashville.

Einungis níu ríki Bandaríkjanna heimila notkun á rafmagnsstólnum sem aðferð til að taka dauðadæmda fanga af lífi. Alls hafa fjórtán fangar verið teknir af lífi með þessari aðferð frá aldamótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×