Sport

Daniel Cormier fór létt með Derrick Lewis

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Daniel Cormier tekur Derrick Lewis niður.
Daniel Cormier tekur Derrick Lewis niður. Vísir/Getty

Daniel Cormier varði þungavigtartitilinn sinn með sigri á Derrick Lewis í nótt. Cormier var ekki í miklum vandræðum með Lewis og kláraði bardagann með hengingu í 2. lotu.

UFC 230 fór fram í nótt í Madison Square Garden í New York. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Daniel Cormier og Derrick Lewis en þetta var fyrsta titilvörn Cormier í þungavigt UFC.

Daniel Cormier gerði nákvæmlega það sem hann átti að gera gegn hinum höggþunga Derrick Lewis. Cormier náði snemma fellu í 1. lotu og átti Lewis í erfiðleikum með að komast upp. Cormier stjórnaði ferðinni allan tímann í 1. lotu.

Það sama var upp á teningnum í 2. lotu en Lewis reyndi að lenda sínum þungu höggum í meistarann en Cormier varðist höggunum. Cormier fór fljótlega aftur í felluna og kom Lewis niður í gólfið. Þegar Lewis reyndi að standa upp komst Cormier á bakið á honum og læsti hengingunni. Lewis neyddist því til að tappa út eftir 2:14 í 2. lotu og fyrsta titilvörn Cormier í þungavigt UFC staðreynd.

Áður en Cormier vann þungavigtartitilinn í sumar var hann ríkjandi meistari í léttþungavigt. Cormier hefur ekki barist í léttþungavigt síðan í janúar og verður sviptur titlinum þegar þeir Jon Jones og Alexander Gustafsson mætast í lok desember. Nú bíður Cormier væntanlega bardagi gegn Brock Lesnar á næsta ári en Cormier ætlar að hætta þegar hann verður fertugur í mars á næsta ári.

Í næstsíðasta bardaga kvöldsins sáum við Ronaldo ‘Jacare’ Souza klára Chris Weidman með tæknilegu rothöggi í 3. lotu. Weidman var á góðri leið með að vinna bardagann þó jafn hafi verið en í 3. lotu smellhitti Jacare með góðu höggi og kláraði Weidman. Jacare vildi stoppa bardagann fyrr en dómarinn var heldur seinn að stöðva bardagann.

Þetta var fjórða tap Weidman í síðustu fimm bardögum. Öll önnur úrslit kvöldsins má nálgast á vef MMA Frétta hér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.