Erlent

Mikil óvissa með ríkisstjórakosningar í Georgíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Stacy Abrams og Brian Kemp.
Stacy Abrams og Brian Kemp. AP/John Amis

Enn er ekki öruggt hver vann kosninguna til ríkisstjóra Georgíu í Bandaríkjunum þó tveir dagar séu liðnir frá kosningunum. Brian Kemp, frambjóðandi Repúblikana, hefur þó lýst yfir sigri og sagt af sér sem innanríkisráðherra ríkisins.

Samkvæmt Kemp sagði hann af sér til að tryggja traust almennings á niðurstöðum kosninganna og til þess að einbeita sér af embætti ríkisstjóra.

Kemp hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarna mánuði fyrir að sinna starfi innanríkisráðherra á sama tíma og hann hefur verið í framboði. Því sem innanríkisráðherra Georgíu hefur hann í raun verið yfir kosningunum sem hann sjálfur tók þátt í.

Hann hefur sömuleiðis verið sakaður um að beita bellibrögðum til að koma í veg fyrir að þjóðfélagshópar sem þykja líklegri til að kjósa Demókrataflokkinn gætu kosið.

Sjá einnig: Sakar Demókrata um tölvuárás eftir að þeir bentu á galla

Þúsundum kjósenda var hent af kjörskrá Georgíu í aðdraganda kosninganna vegna reglubreytinga Kemp.

Stacey Abrams, mótframbjóðandi Kemp, er ekki tilbúin til að viðurkenna ósigur og segir að enn eigi eftir að telja fjölmörg utankjörfundaratkvæði. Reglur Georgíu segja til um að ef frambjóðandi nái ekki meira en fimmtíu prósenta fylgi þurfi að halda aðrar kosningar á milli tveggja efstu frambjóðendanna.

Samkvæmt AP fréttaveitunni er Kemp með rétt rúmlega fimmtíu prósent.

AP segir Kemp halda því fram að einungis eigi eftir að telja um tuttugu þúsund atkvæði og það dugi ekki til. Hann myndi haldast yfir fimmtíu prósentum þó Abrams fengi öllu tuttugu þúsund atkvæðin.

„Við unnum kosningarnar. Það er mjög jóst núna. Við ætlum að byrja undirbúning fyrir embættistökuna,“ sagði Kemp við blaðamenn í dag.

Á meðan að á kosningunum stóð og í kjölfar þeirra hafa fjöldi ásakana um misferli litið dagsins ljós. Kjósendur þurftu víða að bíða í klukkustundir í röð eftir því að geta kosið, skortur var á kjörvélum og búnaður var bilaður, svo eitthvað sé nefnt.

Þá segja eftirlitsaðilar og fólk sem berst fyrir auknum rétti fólks til að kjósa að flestar tilkynningarnar um misferli komi frá samfélögum þar sem minnihlutahópar búa.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.