Erlent

Þorfinnur karlsefni fórnarlamb skemmdarvarga í Philadelphiu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Talið er að reipi hafi verið notað til að toga styttuna niður.
Talið er að reipi hafi verið notað til að toga styttuna niður. Mynd/Tim Jimenez.
Stytta Einars Jónssonar af Þorfinni karlsefni sem staðsett hefur verið í Philadelphiu-borg í Bandaríkjunum í 98 ár fannst í morgun á botni Schuylkill-árinnar. Talið er víst að um skemmdarverk sé að ræða.

Fréttastofa NBCí Philadelphiu fjallar um málið og þar segir að lögregla hafi verið kölluð að vettvangi í nótt að bandarískum tíma þar sem styttan af Þorfinni, íslenskum landkönnuði sem nam land á Vínlandi, ásamt konu sinni Guðríði Þorbjarnardóttur í kringum árið 1000 eftir krist, hafði verið velt af stalli og út í ána.

Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði CBS fréttastofunnar í borginni liggur stallur styttunnar á hliðinni og styttan sjálf er á bólakafi. Lögregla rannsakaði vettvanginn og aflaði upplýsinga um málið en í frétt NBC segir að langlíklegasta skýringin á falli hinnar aldargömlu styttu séu skemmdarverk.



Einar við gerð styttunnar.Mynd/Listasafn Einars Jónssonar.
Í frétt NBC segir þrátt fyrir ekki að sé vitað hver hafi verið að verki hafi styttan á undanförnum árum verið vettvangur mótmæla hvítra þjóðernissinna í borginni á degi Leifs Eiríkssonar sem haldinn er hátíðlegur víða um Bandaríkin 9. október á hverju ári. Þá hefur styttan einnig verið vettvangur gagnmótmæla andstæðinga hvítra þjóðernissinna.

Styttan sett upp árið 1920

Styttan er sem fyrr segir eftir listamanninn Einar Jónsson en að því fram kemur á vefsíðu Listasafns Einars Jónssonar hélt hann til Bandaríkjanna árið 1917 þar sem honum hafi verið boðið að gera tillögu að stórri standmynd af Þorfinni karlsefni.

Hélt hann út ásamt Önnu Jónsson, eiginkonu sinni, og lauk við endanlega gerð myndarinnar árið 1918. Tveimur árum síðar, þann 20. nóvember 1920, var bronsafsteypa af styttunni afhjúpuð í Fairmont Park í Philadelphiu.

Afsteypu af styttunni má einnig finna hér á landi, við lóð Hrafnistu, dvalarheimilis aldraðra sjómanna, í Reykjavík.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×