Enski boltinn

Warnock vonast eftir Aroni í fyrsta leik eftir landsleikjahlé

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Aron Einar Gunnarsson spilaði í gegnum meiðsli á HM í Rússlandi
Aron Einar Gunnarsson spilaði í gegnum meiðsli á HM í Rússlandi Vísir/Getty
Neil Warnock býst við því að Aron Einar Gunnarsson verði tilbúinn til leiks með Cardiff City eftir landsleikjahléð. Landsliðsfyrirliðinn hefur enn ekki spilað leik með Cardiff á tímabilinu.

Aron Einar var meiddur í upphafi tímabils og þegar hann var loks að komast á rétta braut á ný kom bakslag í meiðslin. Hann er hins vegar að ná sér á nýjan leik.

Á blaðamannafundi fyrir leik Cardiff og Tottenham í dag sagði Warnock að Aron yrði „vonandi í hópnum gegn Fulham, það er ekki langt í hann.“

Cardiff fær Fulham í heimsókn 20. október í fyrsta leik eftir yfirvofandi landsleikjahlé.

Það verður að teljast ólíklegt að Aron Einar verði í landsliðshópnum sem Erik Hamrén velur seinna í dag. Warnock var oft ósáttur með hversu mikið Aron spilaði í gegnum meiðsli með landsliðinu og hann vill líklega ekki hleypa Aroni í tvo landsleiki þegar hann hefur enn ekki leikið fyrir Cardiff á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×