Enski boltinn

Sautján ára strákur klæðir upp stjörnurnar í enska boltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sam Morgan er mikill sölumaður.
Sam Morgan er mikill sölumaður. Skjámynd/Umfjöllun BBC

Sam Morgan er ekki þekktur fyrir hæfileika í fótbolta og er nýkominn með bílpróf. Það breytir því ekki að margar af stærstu stjörnum ensku úrvalsdeildarinnar leita til hans.

BBC segir frá hinum sautján ára gamla Sam Morgan sem hefur það skemmtilega starf að kaupa föt á fótboltastjörnurnar. Starfið felst reyndar meira í því að selja leikmönnunum hátísku vörur og oft vörur sem er ekki auðvelt að fá annars staðar.

Meðal viðskiptavina Sams Morgan eru súperstjörnur eins og þeir Paul Pogba, Kevin de Bruyne og Dele Alli.

Paul Pogba er 25 ára, Kevin de Bruyne er 27 ára og Dele Alli er 22 ára.

Pogba er stjarna heimsmeistara Frakka og varafyrirliði hjá Manchester United en Kevin de Bruyne er lykilmaður Englandsmeistara Manchester City og í stóru hlutverki hjá bronsliði Belga.

Dele Alli hefur þrátt fyrir ungan aldur verið lengi stjarna í enska fótboltalandsliðinu auk þess að spila lykilhlutverk með Tottenham.

„Ég hef verið sölumaður alla ævi en hér einu sinni var ég bara að koma heim með nokkur pund. Nú er þetta á allt öðrum skala,“ segir Sam Morgan í viðtalinu við BBC inn á milli þess að hann svarar smáskilboðum frá enska landsliðsmanninum Kyle Walker.

Sam Morgan fer yfir hvernig hann byggði upp „fyrirtækið“ sitt með því að stækka tengslanetið sitt og komast í kynni við stærri stjörnur. Hann stóra tækifæri kom þegar hann komst í samband við Kyle Walker-Peters sem er 21 árs gamall leikmaður Tottenham.

Kyle Walker-Peters hjálpaði Sam Morgan að komast í samband við fullt af leikmönnum Tottenham og þá fór boltinn að rúlla hjá honum fyrir alvöru.

Nú eru kaupendurnir margar af stærstu fótboltastjörnum heims. Það eru ekki lengur bara leikmenn Tottenham eða enskir leikmenn. Kaupendahópurinn hefur stækkað mikið og nær nú til erlendu stjarnanna líka.

BBC hefur verið að skoða aðeins heiminn og fólkið í kringum fótboltastjörnurnar. Fólkið sem eldar ofan í þá eða klippir þá. Nú var komið að skoða strákinn sem klæðir upp stjörnurnar í enska boltanum.

Það má finna þessa umfjöllun um Sam Morgan hér fyrir neðan.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.