Sport

Tyron Woodley þaggaði niður í gagnrýnisröddum með því að klára Till

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Woodley kýlir niður Till.
Woodley kýlir niður Till. Vísir/Getty
UFC 228 fór fram í Dallas í Texas í nótt. Bardagakvöldið var einfaldlega magnað en í aðalbardaga kvöldsins sáum við Tyron Woodley upp á sitt allra besta.

Veltivigtarmeistarinn Tyron Woodley mætti Darren Till í spennandi viðureign. Fyrir bardagann hafði Tyron Woodley verið gagnrýndur fyrir sína síðustu bardaga þar sem hann þótti alltof varkár og hreinlega leiðinlegur.

Það var annað upp á teningnum í nótt. Darren Till stjórnaði pressunni framan af en var þolinmóður og ógnaði lítið. Woodley reyndi tvær fellur en Till varðist vel og þrátt fyrir að Till hafi stjórnað pressunni sótti Woodley meira í 1. lotu.

Snemma í 2. lotu náði Woodley að kýla niður Till með þungri hægri. Woodley fylgdi því eftir með olnbogum í gólfinu en Till varðist vel og tókst að þrauka. Woodley reyndi að klára Till í gólfinu með höggum en Till varðist áfram vel. Þegar skammt var eftir af lotunni fór Woodley í „D’Arce“ hengingu og tappaði Till út eftir 4:19 í 2. lotu.

Tyron Woodley varði því beltið í fjórða sinn og fékk hann að launum svarta beltið í brasilísku jiu-jitsu eftir sigurinn frá þjálfurum sínum. Till var talinn sigurstranglegri af veðbönkum en Woodley svaraði vel fyrir slakar frammistöður að undanförnu með því að klára Darren Till.

Bardagakvöldið var eins og áður segir frábært en í næstsíðasta bardaga kvöldsins sáum við Jessicu Andrade rota Karolinu Kowalkiewicz strax í 1. lotu. Þá fengum við einnig að sjá mörg glæsileg uppgjafartök og var þetta sennilega besta bardagakvöld ársins það sem af er ári.

Öll önnur úrslit kvöldsins má sjá á vef MMA Frétta hér.

MMA

Tengdar fréttir

Till náði vigt en nær hann titlinum?

UFC 228 fer fram í nótt í Dallas þar sem Darren Till freistar þess að ná beltinu af veltivigtarmeistaranum Tyron Woodley í aðalbardaga kvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×