Sport

Meira en þrjátíu milljónir í boði fyrir þann sem vinnur heimsleikana í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir hafa allar komist á verðlaunapall á heimsleikunum undanfarin ár, þar af hafa Annie og Katrín unnið tvívegis.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir hafa allar komist á verðlaunapall á heimsleikunum undanfarin ár, þar af hafa Annie og Katrín unnið tvívegis. Vísir/eyþór
Verðlaunaféð hækkar á milli ára á heimsleikunum í crossfit og keppendur fá bæði væna summu fyrir að vinna leikana sem og ágætis pening fyrir að vinna hverja grein í keppninni.

Heimsleikarnir í crossfit hefjast á morgun í Madison í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum og við Íslendingar eigum þar fimm keppendur í einstaklingskeppninni að þessu sinni.

Það eru Björgvin Karl Guðmundsson karlamegin og svo þær Anníe Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir og Oddrún Eik Gylfadóttir kvennamegin. Frederick Aegidius, maður Anníe Mistar, er einnig með.

Það er ekki bara í boði heiðurinn að vera hraustasti karl eða hraustasta kona heims því verðlaunaféð er ekki af verri gerðinni. Verðlaunaféð er líka jafnmikið fyrir karla og konur sem er til mikillar fyrirmyndar.

40 karlar og 40 konur komust í gegn undankeppnina og munu keppa á þessum tólftu heimsleikum í crossfit. Keppnin stendur frá miðvikudegi til sunnudags.

Sá keppandi sem stendur uppi sem sigurvegari mun vinna sér inn 300 þúsund dollara eða tæplega 32 milljónir íslenskra króna.

Annað sætið gefur 100 þúsund dollara, eða tæplega 11 milljónir króna, þriðja sætið 75 þúsund dollara, eða tæplega 8 milljónir króna og fjórða sætið 50 þúsund dollara, eða rúmlega 5 milljónir króna.

Að auki munu keppendur fá verðlaunfé fyrir að vinna einstakar greinar í keppninni. Þeir fá þrjú þúsund dollara, 315 þúsund íslenskar krónur, fyrir sigur í grein, tvö þúsund fyrir annað sætið og þúsund dollara, 105 þúsund íslenskar krónur, fyrir þriðja sætið.

Mathew Fraser vann karlaflokkinn á heimsleikunum í crossfit í fyrra og vann sér inn 309 þúsund dollara en Tia-Clair Toomey vann kvennaflokkinn og vann sér inn 298 þúsund dollara.

Bæði fengu þau 285 þúsund dollara fyrir sigurinn og á því sést að verðlaunaféð hefur hækkað um fimmtán þúsund dollara eða um eina og hálfa milljón íslenskra króna.

Það má finna meira um skiptingu verðlaunafésins með því að smella hér.


Tengdar fréttir

Katrín Tanja: Stolt af því að vera kona með vöðva

Íslenska krossfitstjarnan Katrín Tanja Davíðsdóttir ætlar sér að endurheimta titilinn hraustasta kona heims þegar heimsleikarnir hefjast í Madison í Wisconsin fylki í Bandaríkjunum í þessarri viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×