Staðurinn er um 25 kílómetra austan við Vík, og um 6 kílómetrum neðan þjóðvegarins um Mýrdalssand, milli Hjörleifshöfða og Álftavers, og er nefndur Arfabót. Þar fer Bjarni F. Einarsson fyrir hópi fornleifafræðinga.
„Við erum að grafa upp eyðibýli sem fór í eyði einhverntímann í byrjun 15. aldar og hefur síðan gjörsamlega gleymst. Við erum rétt að byrja en þetta er annað sumar rannsókna,” segir Bjarni.

Heimildir eru um að fyrr á öldum hafi verið mikil byggð þar sem nú er eyðisandur.
„Það gætu hafa verið hér 25 býli sem meira og minna eru öll horfin.”

„Þannig að það eru ekki hamfarir sem slíkar sem eyða þessum bæ heldur afleiðingar fjölmargra gosa, sem hafa riðið yfir byggðina aftur og aftur. Og ekkert víst að bæirnir hafi allir farið í eyði samtímis. Mér finnst það frekar ólíklegt.”
Bjarni vonast til að rannsóknin verði innlegg í hamfarasögu Íslands, sem hann segir nánast órannsakaða.
„Hvaða áhrif hafa gos almennt á Íslandi valdið? Bæði á verkmenningu, efnismenningu og andlega menningu? Ég vona að Arfabót varpi einhverju ljósi á þann þátt,” segir Bjarni F. Einarsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: