Verndartollar á íslenskar landbúnaðarafurðir voru Sindra Sigurgeirssyni, formanni Bændasamtakanna meðal annars ofarlega í huga í setningarræðu hans á Búnaðarþingi 2018 sem hófst í dag.
„Tollverndin er hætt að bíta og miðað við gengi krónunnar, og verðgildi tollanna hefur ekki tekið neinum breytingum í 20 ár, þannig það sem á að verja okkur með tollvernd þarf að endurskoða í dag,” segir Sindri í samtali við Stöð 2.
Ísland leiddi matvælalöggjöf Evrópusambandsins í lög árið 2009 en með nýlegum dómi komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að íslenskar reglur sem leggja hömlur á innflutning hrárrar kjötvöru samrýmist ekki ákvæðum EES-samningsins. Sindri telur stjórnvöld hafa brugðist of vægt við niðurstöðu dómsins.
„Það er að okkar mati ákveðin uppgjöf í þessu hráakjötsmáli hjá stjórnvöldum, við hvetjum þau til þess að fara til Evrópusambandsins og ræða þessi mál. Þetta er greinilega öðruvísi en þetta var hugsað þegar menn voru að samþykkja þetta á Alþingi 2009, þá var mikil sátt um málið. EFTA dómstóllinn hefur sett málið í annan búning núna, sú sátt er ekki lengur fyrir hendi og þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að ræða þetta,” segir Sindri.
Eðlilegt að tollvernd „bíti”
Aðspurður segir hann það ekki skjóta skökku við að krefjast tollverndar en á sama tíma fara fram á útflutningsskyldu sem er meðal þess sem bændaforystan hefur lagt til til að bregðast við þeim vanda sem blasir við í sauðfjárrækt.„Ef við ætlum að hafa tollvernd þá er eðlilegt að hún bíti. Að sama skapi eigum við að sjálfsögðu að nýta þær auðlindir sem við höfum og þau tækifæri í að framleiða gæðamat og leyfa fleirum að njóta þess,” segir Sindri. „Við sjáum að innflutningur á búvörum er að aukast mjög mikið og samkeppnisstaða íslenskrar framleiðslu er bara erfið um þessar mundir.”

„Ég held að við séum svona í grunninn á sömu línu, þetta er spurning um með hvaða hætti við reynum að nálgast þessi markmið okkar, bæði í þágu bænda og ekki síður íslenskra neytenda,” segir Kristján Þór. „Ég hef enga trú á öðru en að við náum saman um einhverjar leiðir til þess að styrkja stöðu allra í þessum efnum. Það er tímabært, það er mikið verkefni, það er vandasamt og mun verða flókið en ég er fullviss um að við munum vinna okkur út í gegnum það.“