Stefna ríkisstjórnarinnar nefnist „Zero tolerance“, eða ekkert umburðarlyndi og krefst þess að allir þeir sem koma ólöglega til Bandaríkjanna verði sóttir til saka. Ef um er að ræða foreldra eru börn þeirra vistuð í flóttamannabúðum á meðan foreldrarnir fara í gegnum dómskerfið. Fjölmargir hafa gagnrýnt stefnuna harðlega. Laura Bush, fyrrverandi forsetafrú, hefur sagt stefnuna vera grimma og siðlausa. Talskona Melaniu Trump segir forsetafrúna ekki þola það að sjá börn aðskilin frá foreldrum sínum.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir það hrikalegt að aðskilja þurfi börn frá foreldrum sínum á landamærunum. Þá kennir hann Demókrataflokknum hvernig komið er fyrir innflytjendalöggjöfinni í Bandaríkjunum. Hann segir að á sinni vakt muni Bandaríkin ekki verða að flóttamannabúðum.
„Bandaríkin verða ekki búðir fyrir landflótta fólk og þau verða ekki flóttamannabækistöð. Það mun ekki verða. Sjáið hvað er að gerast í Evrópu, sjáið hvað gerist annars staðar. Við getum ekki látið það gerast í Bandaríkjunum. Ekki á minni vakt.“