Erlent

Frakkar senda herlið til að hefta sókn Tyrkja í Sýrlandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Emmanuel Macron er forseti Frakklands.
Emmanuel Macron er forseti Frakklands. vísir/getty
Frakkar hyggjast senda herlið til norður-Sýrlands til þess að hefta sókn Tyrkja gegn Kúrdum. Tyrkir hafa undanfarna mánuði sótt hart að Kúrdum við landamæri Sýrlands og Tyrklands.

Greint er frá þessu í frönskum miðlum í kvöld og er haft eftir talsmönnum Kúrda sem funduðu með Emmanuel Macron í París í dag að hann hafi heitið því að styðja við bakið á herliði Kúrda.

Aðgerðir Tyrklandshers í Norður-Sýrlandi hafa einkum beinst að YPG, her Kúrda, en Tyrkir vilja meina að um sé að ræða hernaðararm Verkamannaflokks Kúrda. Hafa aðgerðir Tyrkja beinst að Afrin-héraði Sýrlands, þar sem talið er að Haukur Hilmarsson hafi látist, en hann barðist með hersveitum YPG gegn Tyrkjum.

Tyrkir verið sakaðir um að gera loftárásir á almenna borgara í sókn sinni í norður-Sýrlandi. Alls hafa tugir þúsunda almennra borgara hafa flúið undan hernum.

Hér má hersveitir Tyrkja fagna framgangi sínum í Afrin-héraði í Sýrlandi.Vísir/EPA

Trump segir að Bandaríkjaher fari frá Sýrlandi „innan tíðar“

Um tvær vikur eru síðan Tyrkir hertóku borgina Afrin og er herinn nú sagður ætla að snúa að sér að borginni Manbij. Þar eru hins vegar bandarískir hermenn og greinir franska dagblaðið Le Parisien frá því að Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hafi ákveðið að senda franskar sérsveitir til Manbij, til þess að stöðva sókn Tyrkja.

Í frétt Le Figaro segir að frönsku hermennirnir muni aðstoða herlið Bandaríkjanna í Manbij. Segir einnig að sendiherra Frakka í Tyrklandi hafi verið falið að greina Erdogan, forseta Tyrklands, frá ákvörðun Frakklandsforseta.

Macron fundaði í dag með fulltrúum Kúrda en hann hefur verið harðlega gagnrýndur heima fyrir vegna skorts á viðbrögðum við sókn Tyrkja inn í norður-Sýrland, en Frakkar hafa stutt YPG í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS.

Í frétt Reuters segir að Macron og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi ræðst við í síma í gær. Í yfirlýsingu frá Macron segir að forsetarnir tveir hafi sammælst um að baráttan gegn ISIS væri mikilvægasta verkefnið í Sýrlandi og ekki mætti gera neitt sem raskaði þeirri baráttu.

Þetta virðist þó ekki ríma við orð Trump á fjöldafundi í Ohio í dag þar sem hann lýsti því yfir að Bandaríkinn myndu draga herlið sitt til baka frá Sýrlandi „innan tíðar“.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.