Heita vatnið sem verið er að hleypa um sveitina er úr borholum á Möðruvöllum.
„Við eigum nóg af vatni en vandamálið er hvað við erum dreifð. Þetta eru 120 kílómetrar af lögnum en við byrjuðum í maí 2016 og það er rífandi gangur í þessu,“ segir Sigríður.
Að sögn veitustjórans hefur heitt vatn nú þegar verið pantað í yfir 90 prósent íbúðarhúsa í sveitarfélaginu og 72 prósent sumarbústaða. Alls eigi að tengja 440 staði og því að vera lokið 30. nóvember í haust.

„Áður fyrr segist hann ekkert hafa verið að sýna þeim Kjósina. En núna sé komin hitaveita og ljósleiðari og það séu ekki mörg sveitarfélög sem bjóði upp á það í sumarhúsum.“
Sigríður segir þá sem þegar séu tengdir við hitaveituna lýsa mikilli breytingu til hins betra. Saggalykt hverfi, loftið í bústöðunum sé mýkra og fyrirsjáanlegt sé að viðhald minnki.

Þótt tengt hafi verið við 204 sumarhús nú þegar er aðeins búið að taka inn heitt vatn í 84 af þeim. „Það er skortur á pípurum núna þannig að ef einhvern pípara vantar vinnu þá er bara að hringja í Kjósina. Hér er beðið eftir þeim,“ segir Sigríður Klara Árnadóttir.