Erlent

Ofbeldisalda vegna verkfalls lögregluþjóna

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmælendur brenndu hjólbarða á götum Vitoria.
Mótmælendur brenndu hjólbarða á götum Vitoria. Vísir/EPA
Nærri því tvö þúsund hermenn vakta nú götur borgarinnar Vitoria í Brasilíu eftir að lögregluþjónar þar fóru í verkfall um helgina. Verslanir hafa verið rændar og skólum, opinberum stofnunum og heilsugæslustöðvum hefur verið lokað og almenningssamgöngur hafa verið stöðvaðar. Yfirvöld héraðsins Espirito Santo saka lögreglu um kúgun og heita því að greiða þeim ekki „lausnargjald“.

Tugir hafa látið lífið í ofbeldisöldunni sem fylgt hefur verkfallinu og voru hermenn sendir til Vitoria í gær til að stuðla til friðar. Tala látinna er komin yfir hundrað samkvæmt Times of Rio.

Hermönnum hefur ekki tekist að binda enda á ofbeldisölduna.

Lögregluþjónarnir, sem fóru í verkfall á föstudaginn, segjast ekki hafa fengið launahækkanir í sjö ár og vilja að laun þeirra verði tvöfölduð.

Í samtali við Times segir Julio Pompeu, mannréttindaráðherra héraðsins, að íbúar séu hræddir og að ástandið sé „alger geðveiki“. Viðræður á milli deiluaðila hófust í gær, en ríkisstjórinn Espirito Santo sagði að kröfur lögregluþjónanna væru of miklar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×