Innlent

Saksóknari telur fimm og hálfs árs dóm hæfilega refsingu í nauðgunarmáli

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Átján ára piltur var nýlega dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga tveimur fimmtán ára stúlkum. Verjandi piltsins segir dóminn of þungan. Varahéraðssaksóknari telur refsinguna hins vegar hæfilega og í samræmi við það að dómar í kynferðisbrotamálum séu að þyngjast.

Pilturinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir skömmu en nauðganirnar áttu sér stað síðasta sumar. Í fyrra skiptið nauðgaði hann fimmtán ára stúlku á heimili sínu í Reykjanesbæ. Lýsti stúlkan hrottalegri líkamsárás þar sem pilturinn tók hana kverkataki, sparkaði og sló, steig ofan á háls hennar, hótaði að drepa hana og nauðgaði henni tvívegis.

Ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir piltinum eftir að fyrra málið kom fram og sætti það töluverðri gagnrýni á sínum tíma. Í dóminum kemur fram að eftir nauðgunina hafi foreldrar drengsins farið með hann á geðdeild og óskað eftir aðstoð. Hann var hins vegar ekki lagður inn.

Sex dögum síðar nauðgaði hann annarri fimmtán ára stúlku í Reykjavíkur. Stúlkan var flutt illa leikin á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. í framhaldi var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald. 

Unnar Steinn Bjarndal, verjandi piltsins, segir dóminn of þungan. Ekki hafi verið litið nægilega mikið til ungs aldurs piltsins og andlegra veikinda hans. Það liggi fyrir að hann hafi frá upphafi í málinu viljað leita sér aðstoðar en ekki fengið hana nema að takmörkuðu leyti. Verið sé að skoða hvort dóminum verði áfrýjað.  

Það hefur almennt verið talið að dómar í kynferðisbrotamálum séu of vægir á Íslandi en það er mat varahéraðssaksóknara að dómar í þeim málum séu að þyngjast.

„Það urðu töluverðar breytingar á kynferðisbrotakaflanum árið 2007 og við sjáum ákveðna þyngingu í dómum í kjölfar þess. Án þess að ég hafi lagst ofan í það fræðilega þá sýnist mér samt sem áður að dómar fyrir nauðgunarmál hafi verið að þyngjast,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sem telur að þyngd refsingarinnar í þessu máli sé hæfileg. 

„Svona þegar þetta allt saman er vegið saman. Alvarleikinn og ungur aldru hans og svo framvegis þá held ég að þetta sé hæfileg refsing,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×