Lífið

Tekur þátt í lífi fanga

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
"Þegar við mætum í vinnuna, þá skiljum við allt eftir. Það er mikilvægt. Við eigum líka að koma eins fram við alla hér,“ segir Björg Elísabet Ægisdóttir, kölluð Bogga. Fréttablaðið/Antonbrink
"Þegar við mætum í vinnuna, þá skiljum við allt eftir. Það er mikilvægt. Við eigum líka að koma eins fram við alla hér,“ segir Björg Elísabet Ægisdóttir, kölluð Bogga. Fréttablaðið/Antonbrink Vísir/AntonBrink
Bogga tekur á móti ljósmyndara og blaðamanni í elsta hluta Litla -Hrauns.

Dagurinn byrjar snemma. Hún fer yfir þrifin og hitar kaffi. Á skrifstofu Boggu er rekin lítil sjoppa þar sem aðstandendur geta keypt snakk og sælgæti. Við skrifstofuna er langur gangur herbergja. Í hverju herbergi er legubekkur, stóll og lítið borð. „Þetta eru bara herbergin sem fólk getur hitt fjölskyldur sínar í, þau eru auðvitað sum mjög lítil,“ segir hún.

„Auðvitað myndi maður vilja hafa þetta flottara, en ég gæti að því að hafa þetta eins gott og mögulegt er. Ég reyni að hafa þetta eins og fólk sé að koma í kaffi til mín. Ég legg mig fram um að taka virkilega vel á móti fólki. Heilsa því og læri nöfn þeirra. Upplýsi og hvet fólk til að spyrja að hverju sem er, sama hversu kjánaleg spurningin er. Ég reyni bara að hjálpa fólki í gegnum þetta,“ segir Bogga.

Örlögin gripu inn í



Bogga er fædd og uppalin í Gaulverjabæ og kann vel við sig í vinnu á Litla-Hrauni í umhverfi og náttúru sem hún kannast við.

„Ég prófaði að búa í Reykjavík þegar ég var ung. Fór að vinna í matvælaiðnaði, en mér fannst það alveg skelfilegt og saknaði þess að hafa náttúruna í kringum mig,“ segir hún frá.

Bogga segist hafa leitað sér að vettvangi þar sem hún gæti nýtt sér hæfileika sína. „Ef ég væri ekki fangavörður í dag þá hefði ég líklega endað sem matreiðslumaður eða eitthvað slíkt. En örlögin gripu inn í. Ég var að vinna í fiski með konu sem átti son á Litla-Hrauni. Hún sagði að ég væri týpan í þetta. Sannfærði mig um það. Þá var auglýst eftir fólki hér og ég sló til og var ráðin,“ segir Bogga sem síðar útskrifaðist frá Fangavarðaskólanum.

„Ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun. Starfsandinn hér er mjög góður. Hér starfar fólk sem vill hjálpa á ábyrgan hátt. Vera stuðningur í lífi fólks. Við höfum mörg svipaða skapgerð, erum flest fremur róleg og jarðbundin,“ segir hún.

Gefa af sér en eru ekki fyrir

„Ég deili annars ekki miklu um sjálfa mig og einkalíf mitt. Ég er heldur ekki að fela neitt en ég hef skil á milli. Það skiptir miklu máli að halda egóinu utan við starfið,“ segir Bogga og segir mikilvægt að fólk í starfsgreinum sem hlúa að fólki í erfiðleikum sé ekki að blanda sjálfu sér í málin.

„Við erum þrautþjálfuð í að gefa af okkur án þess að vera fyrir,“ segir hún.

„Þegar við mætum í vinnuna, þá skiljum við allt eftir. Það er mikilvægt. Við eigum líka að koma eins fram við alla hér. Hvað sem þeir hafa brotið af sér. Fangarnir segja oft, þú veist fyrir hvað ég er hérna er það ekki? En ég er ekkert að pæla í því og er alls ekkert að leita eftir því. Mér finnst kannski betra að vita það ekki, hef ekki þörf fyrir það,“ segir hún.

Skömm aðstandenda



Starfsaldur á Litla-Hrauni er almennt hár. „Hér eru menn sem eru búnir að vera allt upp í 25 til 30 ár í starfi og tveir búnir að ná 40 árum,“ segir Bogga sem segir starfið helst reyna á andlega þætti.

„Yfirleitt eru allir kátir. Það er þá helst sem reynir á andlega.

Starf mitt felst helst í miklum samskiptum við ættingja. Það er oft erfitt og flókið að eiga aðstandanda í fangelsi. Því fylgir mikil skömm og sumir geta bara talað um það við fangavörð hvernig þeim líður. Það getur til dæmis verið erfitt þegar menn eru í neyslu, eða þegar við erum með fanga sem eru í geðrofi eða með geðsjúkdóm,“ segir Bogga.

Hún segir umræðu um aðbúnað fanga oft einsleita.

„Það er sjaldan sem eitthvað já- kvætt kemur fram í fjölmiðlum um starfið hér. Við fylgjumst líka með umræðu á samfélagsmiðlum sem sveiflast ógurlega. Frá því að það eigi að loka einhvern inni og henda lyklinum eða þá hversu illa er farið með fanga,“ bendir hún á.

Fangelsi getur verið ljós í myrkri



„Auðvitað er fangelsi neikvætt í sjálfu sér en fyrir marga fanga og aðstandendur getur það verið ljósið í myrkrinu. Því þar er oft ákveðið að snúa við blaðinu og fara á beinu brautina. Þótt auðvitað séu svo til menn sem eru orðnir svo stjórnlausir í neyslu að fangelsið verður griðastaður. Lífsbjörg.

Það vill oft gleymast að hér eru starfsmenn og fangar að gera mjög góða hluti. Það kemur aldrei fyrir að þessari stétt sé hrósað í fjölmiðlum og afar sjaldan er föngum hrósað fyrir góða breytni og frammistöðu,“ segir Bogga og segir einmitt mikla þörf á slíkri jákvæðri umbun.



Viðamikið starf

Hvernig skyldi dæmigerður dagur fangavarða líða?

„Það er byrjað á því að opna alla klefa og bjóða góðan dag. Svo fara þeir að týnast fram og fá sér morgunmat.

Klukkan níu fara þeir út í vinnu og skóla. Það eru fangaverðir sem sjá um vinnuna og taka á móti þeim. Stýra vinnunni og liðsinna þeim með ýmislegt.

Þeir sem fara ekki í vinnu eða skóla fara í útivist klukkan tíu.

Svo fara allir inn í hádeginu og fá sér að borða. Sama rútínan byrjar aftur eftir hádegismat klukkan eitt. Það er útivist aftur klukkan þrjú og svo enn og aftur eftir klukkan fimm.

Á virkum dögum þurfa fangar einnig að sinna alls kyns erindum sem fangaverðir þurfa að liðsinna þeim í.

„Flutningar í dóm, læknaferðir, fylgdarleyfi og fleira. Hér á Litla-Hrauni eru líka alls konar viðtöl við lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, félagsfræðinga, lögfræðinga og námsráðgjafa Svo fara þeir í verslunina og fá heimsókn. Klefunum er svo lokað klukkan tíu um kvöldið.“

Fyrir utan að sjá um heimsóknir aðstandenda til fanga þá sér Bogga um ýmsar skráningar og einkennisföt fyrir allt fangelsiskerfið.

„Ég hitti marga aðstandendur og börn þeirra. Þegar við vorum með fullt fangelsið gátu þetta verið um 200 manns sem voru að koma í heimsókn í hverjum mánuði. Samt er alltaf einhver hópur sem ekki fær heimsóknir. Hér í fangelsinu eru það um tuttugu prósent.“

Hún segir ekki hjá því komist að vera umhugað um bæði fanga og aðstandendur þeirra.

„Ég held að enginn geti komist hjá því að þykja vænt um fólk sem það hefur þekkt í mörg ár svo að svarið er frekar að manni er umhugað um þá. Ég hef verið með föngum hér í mörg ár og tekið þátt í lífi þeirra. Við erum með þeim um hátíðar, þegar börn þeirra fæðast og hittum þau svo aftur þegar þau koma að heimsækja þá.

Við erum með þeim þegar aðstandendur þeirra veikjast eða deyja, fylgjum þeim á sjúkrahús, í jarðarfarir, fæðingu og fermingar barna þeirra svo auðvitað myndast oft væntumþykja. Ég hef einu sinni farið í jarðarför hjá fanga sem var búinn að vera á Litla-Hrauni í mörg ár,“ útskýrir Bogga um þau tengsl sem myndast. „Allt lífið fer hér í gegn, þetta er hringrás lífs og dauða og það er stundum erfitt að tækla það,“ segir Bogga um það sem henni þykir mest krefjandi.

Geðprýði og hugrekki



Hvaða eiginleikum telur hún að sé gott að búa yfir í starfi fangavarðar?

„Vera geðgóður, þolinmóður og ekki þýðir að vera hræddur. Svo þarf maður að geta verið með góða hlustun því það er ýmislegt sem býr bak við orðin. Svo þarf að geta skilið sig frá starfi og persónulegum hlutum. Vera ákveðinn en samt sanngjarn og ekki vera meðvirkur. Við erum í flóknu hlutverki. Við eigum að hjálpa og liðsinna en samt láta þá fara eftir reglum. Það kemur fljótt í ljós hvort þetta starf hentar þér,“ segir hún.

Örfáar konur fangaverðir

Fimmtíu og þrír fangaverðir starfa á Litla-Hrauni og Sogni. Af þeim eru aðeins sex konur.

„Það eru ekki margar konur í þessu starfi, við höfum verið að jafnaði um sjö hér þau tuttugu ár sem ég hef starfað sem fangavörður. Oft fjölgar þeim á sumrin og það er gott. Það er nefnilega mikið gagn í því að hafa konur í þessu starfi. Þeir segja okkur marga hluti sem þeir eru ekki að ræða við karlkynsfangaverði,“ segir hún.

„Ég er ekki viss um af hverju konur velja sér síður þetta starf. En kannski eru þær ekkert að hugsa, hey það er örugglega alveg frábært að vinna á Litla-Hrauni,“ segir hún og kímir.

Bogga segir starfsandann á Litla-Hrauni góðan þrátt fyrir niðurskurð. „Eins og aðrar ríkistofnanir höfum við orðið fyrir miklum niðurskurði og allt sparað. Helst þyrfti að hugsa betur um starfsmennina sem vinna í þessu kerfi. Mér fyndist góð hugmynd að bjóða upp á liðveislu. Það stendur þó til bóta.

Eins hefur í gegnum tíðina stöðugt verið að fækka stöðum í fangavarðarstétt. Fjölbreytnin er minni og erfiðara að vinna sig upp í starfi. Lögreglan hefur til dæmis langtum fleiri möguleika á starfsþróun. Þú getur unnið sem fangavörður í tuttugu ár án þess að hækka einu sinni í stöðu. Hvað þetta varðar þá finnst mér að það þurfi að leggja meiri metnað í nám í Fangavarðaskóla. Námið var tvær annir en árið 2008 var námið stytt í eina önn í sparnaðarskyni, segir Bogga frá og segir stjórnmálamenn sjaldan brenna fyrir fangelsismálum.

„Stjórnmálamenn eru ekki að berjast fyrir þessu kerfi í aðdraganda kosninga enda gefur þetta fá atkvæði,“ segir Bogga.

Mýkri veruleiki í fangelsi

Bogga segir veruleikann á Litla-Hrauni mýkri í dag en þegar hún hóf störf fyrir tuttugu árum.

„Þegar ég hóf störf var andrúmsloftið grjóthart og stíft. Þá voru fangar líka oftar á miklum lyfjum sem gerði þá erfiðari í samskiptum. Veruleikinn er ekki eins harður. Nú er unnið meira með föngum og litið til betrunar. Eins skiptir miklu máli að það hefur verið tekið á lyfjaávísunum lækna til fanga. Mörg lyf sem hægt er að misnota eru á bannlista,“ bendir hún á.

Strokið yfir hverja síðu



Hún segir að þótt eiturlyfjum sé smyglað í fangelsið sé gæslan og aðhaldið mikið. „Það er sama ástandið í öllum fangelsum heimsins. Hér eru fíklar og þeir reyna alltaf að smygla inn eiturlyfjum. Þetta hefur snarlagast, hér er mikil gæsla og fíkniefnahundur á staðnum. Þeir eru samt oft skrefi á undan. Nú þarf til dæmis að strjúka yfir hverja blaðsíðu af bók sem berst inn á fangelsið ef það skyldu nú leynast þar morfínplástrar,“ bendir hún á sem dæmi.

„Í dag koma fleiri sérfræðingar að málefnum hvers fanga. Hugsunin er að koma föngum út í samfélagið og virkja þá til góðs. Nú fara þeir í opið fangelsi, síðan á Vernd og fá svo ökklaband. Áður fóru þeir beint úr öryggisfangelsi á götuna. Margt hefur breyst til góðs og sú þróun ætti að halda áfram,“ segir Bogga sem bendir á að margt megi enn betur fara.

Verknám yrði til bóta



„Það sem við erum alltaf að basla við er að fá næga vinnu fyrir þá. Einnig held ég að verknám mundi gera þeim mjög gott. Það myndi gagnast þeim mjög mikið ef þeir væru með iðnmenntun þegar þeir losna héðan út.

Flestir hér hafa ekki möguleika á því að ganga vel í bóknámi. Þetta kostar allt saman peninga,“ segir Bogga.

„Svo finnst mér vanta húsnæði og vinnu fyrir þá sem lokið hafa afplánun sem gæti orðið á vegum ríkis og sveitarfélaga og þá með umsjón til að draga úr líkum á að fara aftur í afbrot. Sumir sem eru hér hafa aldrei unnið í venjulegri vinnu og aldrei borgað skatt. Vita varla hvað skattur er,“ leggur hún áherslu á.

Hún segir oft einblínt á aðbúnaðinn í stað meðferðarstarfs.

„Við verðum að muna að hvernig sem aðbúnaðurinn er er það manneskjan sjálf sem ákveður að breyta lífi sínu og það hefur ekkert með aðbúnað að gera. Hér er til dæmis rekin meðferðardeild með tveimur meðferðarfulltrúum sem er frábært starf. Svo eru AA-fundir hér á hverju kvöldi. Það er óeigingjarnt starf sem oft er lítið metið. Hér er allt til staðar fyrir þá sem vilja fara beinu brautina.“

Andlitið breytist



Bogga segist ætla að vinna lengur sem fangavörður þótt henni þyki vinnudagurinn full langur. „Starfsfélagarnir eru frábærir. Það verður að segjast eins og er að það er þægilegt að vinna með karlmönnum, þeir eru ekki að flækja hlutina of mikið.

Það eina sem ég get fundið að starfinu er að þetta er frekar langur vinnudagur eða frá 08.00 til 17.00 og engin matar- eða kaffitími.

„Mér finnst gott að hjálpa fólki, það gefur mér heilmikið. Það er líka ómetanlegt að upplifa það þegar fangar snúa lífi sínu til betri vegar. Það er gott að fá að taka þátt í því. Maður sér það, það breytist allt. Fasið og meira að segja svipurinn á andlitinu. Það er eins og það kvikni hreinlega ljós. Þeir átta sig á því hvað lífið er mikils virði og hvað aðstandendur þeirra hafi barist mikið fyrir því að þeir breyti lífi sínu. Þetta er gleðin í starfinu. Þegar það gengur vel.

Svo eru margir sem koma hingað aftur og aftur. Stundum er maður feginn þegar þeir koma hingað inn. Þá hafa þeir verið að skaða fólk og í bulli. Stundum bjargar það lífi þeirra að koma hingað hinn. Það vita það ekki allir en lögreglan grípur oft inn í þegar einhver góðkunningi þeirra er kominn í stórhættu.

Þá eru þeir kannski teknir fram fyrir röðina og í afplánun. Stundum hafa foreldrar þessara manna og jafnvel börn þeirra hringt og beðið um afplánunina. Fjölskyldan er stundum fegin þegar tekist hefur að bjarga lífi þessara manna með því að taka þá úr umferð. Þetta er ekki allt eins en það sem er alltaf eins er að þau eru þung sporin hingað inn. Þyngst þegar fólk kemur hingað í fyrsta sinn. En alltaf þung. Og þess vegna skiptir nú öllu máli að vera almennilegur og minna fólk á tækifærið á því að sjá nú ljósið og snúa til betri vegar,“ segir Bogga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×