Innlent

Mörg dæmi um að ungmenni dreifi örvandi lyfjum ólöglega

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Af 2.306 nemendum sögðust 208 hafa fengið örvandi lyf við athyglisbresti með ofvirkni.
Af 2.306 nemendum sögðust 208 hafa fengið örvandi lyf við athyglisbresti með ofvirkni. VÍSIR/EYÞÓR
„Þetta virðist vera töluvert algengara hér heldur en við erum að sjá erlendis,“ segir Gísli Kort Kristófersson, lektor í hjúkrunarfræði á Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri.

Gísli er fyrsti höfundur greinar um ólögmæta dreifingu örvandi lyfseðilsskyldra lyfja meðal unglinga í 10. bekk. Gögnum var safnað í febrúar 2015. Meginniðurstöður rannsóknarinnar voru þær að af 2.306 nemendum sem tóku þátt í könnuninni sögðust 9 prósent (208) hafa fengið örvandi lyf við athyglisbresti með ofvirkni.

Strákar voru rúmlega helmingi líklegri til að hafa fengið slík lyf uppáskrifuð en stúlkur. Tæplega 18% unglinganna í könnuninni kváðust hafa dreift lyfjunum sínum til annarra með einhverjum hætti, annaðhvort með því að hafa selt þau, gefið þau eða skipt þeim fyrir eitthvað annað. Flestir seldu þau.

„Við héldum að við þyrftum að hafa áhyggjur af eldri hópum en svo kemur i ljós að þetta er hátt hlutfall hjá krökkum í tíunda bekk. Það þýðir bara að við þurfum að vera vakandi fyrir þessu líka þar,“ segir Gísli í samtali við Fréttablaðið. Hann segir þessa niðurstöðu alls ekki þýða að örvandi lyf geri ekki sitt gagn. „Þau gera það svo sannarlega og við þurfum bara að vera okkur meðvitandi um það að þessi lyf eru líka ákveðin neysluvara sem er eftirsótt og gengur kaupum og sölum.“



Gísli Kort Kristófersson
Aukin löggæsla ekki lausnin

Gísli segir að skaðinn af ólöglegri lyfjadreifingu sé tvenns konar. Í fyrsta lagi liggi í hlutarins eðli að börnin taki ekki nauðsynleg lyf ef þau eru að selja þau eða gefa. Þau verða því af nauðsynlegri lyfjameðferð. „Síðan eru það þeir einstaklingar sem eru að nota þessi lyf sem vímuefni.“

Gísli telur ekki að aukin löggæsla sé rétta leiðin til að takast á við þennan vanda. „Heldur frekar til dæmis að foreldrar viti að það sé áhætta, að það gæti til dæmis verið þrýstingur á þessa krakka að selja, skipta eða gefa,“ segir Gísli. Foreldrar þurfi að halda vel utan um þessa lyfjagjöf og hafa eftirlit með henni eins lengi og hægt er.

Gísli segir nokkrar leiðir til að fylgja lyfjagjöfinni eftir. „Til dæmis er hægt að skoða með þvagprufum hvort krakkarnir séu ekki örugglega að taka lyfin,“ bætir Gísli við. Hann segir dæmi um það erlendis að verið sé að kúga lyf út úr krökkunum. Slík dæmi séu hins vegar ekki þekkt hér heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×