Lífið samstarf

Gleði og sorgir Jógu Gnarr

Jón Gnarr segir að það hafi verið mikil lífsreynsla fyrir sig að skrifa bókina.
Jón Gnarr segir að það hafi verið mikil lífsreynsla fyrir sig að skrifa bókina. MYND/ERNIR
KYNNING Jón Gnarr sá mikla sögu í skelfilegri lífsreynslu eiginkonu sinnar, Jógu. Hann þurfti þó að ganga lengi á eftir henni til að fá að skrásetja hana. Bókin Þúsund kossar hefur nú litið dagsins ljós og hefur fengið frábærar viðtökur.





Jón segir að það hafi verið erfitt fyrir Jógu að fara í gegnum minningarnar frá þessum tíma. „Að horfast í augu við hluti sem hún hafði kosið að gleyma. Jóga lenti í alvarlegu bílslysi í New York árið 1981 sem breytti ekki aðeins lífi hennar heldur einnig framtíðarvonum. Á meðan hún tókst á við að ná bata eftir slysið þurfti hún að glíma við bandaríska dómskerfið sem er afar flókið og vandmeðfarið. Fyrst var barátta við undirrétt, síðan millidómstig og loks hæstarétt. Með þessu var Jóga að berjast fyrir réttindum sínum að fá slysabætur. Málið varð alltaf umfangsmeira og flóknara eftir því sem það fór lengra. Þetta voru mörg erfið spor fyrir tvítuga íslenska stúlku,“ segir Jón. „Erfið lífsreynsla, mikill einmanaleiki og umkomuleysi.“



Peð meðal sterkra lögmanna

Bókin Þúsund kossar lýsir þessu ferli á persónulegan hátt þar sem blandast sektarkennd, skömm og glatað sakleysi. Á þessum tíma blasti framtíðin við Jógu og næst á dagskrá var að láta draum um leiklistarnám rætast. „Jóga slasaðist illa í þessu bílslysi og mun aldrei ná sér fullkomlega. Það setti sitt mark á líkamlegt og andlegt ástand hennar. Þetta er ótrúleg saga og mér hefur alltaf fundist að hana þyrfti að segja. Þetta ferli í Bandaríkjunum tók fimm ár. Hún sagði mér oft frá þessari lífsreynslu í hlutum, gjarnan þegar eitthvað rifjaðist upp fyrir henni, til dæmis þegar við heimsóttum New York. Þegar fólk verður fyrir alvarlegum áföllum skerðist oft minnið. Jóga þjáðist lengi af áfallastreituröskun sem var ekki einu sinni viðurkennd á þessum tíma. Í augum kerfisins voru það bara karlar sem höfðu barist í stríði sem urðu fyrir áföllum. Það er í rauninni magnað að vera einhvers konar peð í risastórum heimi bandarískra lögmanna.

Bókin var skrifuð í Texas og gat stundum tekið á sambandið
Frægt dómsmál

Jón segir mjög margt hafa komið sér á óvart þegar hann settist við skriftir.

„Ég lærði til dæmis mikið um eðli og áhrif áfalla. Hvernig þau setja mark sitt á þá sem fyrir þeim verða. Auk þess þurfti ég að hafa samband við dómskjalasöfn í Bandaríkjunum til að fá í hendur öll skjöl sem tilheyrðu málinu. Það var fyrst þá sem við uppgötvuðum hvað þetta var umfangsmikið og merkilegt mál. Það er þekkt hjá lögfræðingum sem fást við slysabætur og hefur skapaði fordæmisgildi. Málið snerist fyrst og fremst um rétt hennar á slysabótum sem okkur finnst sjálfsagður í dag en var dregin í efa á þessum tíma. Sagan fjallar sömuleiðis um áfall og síðan upprisu. Barátta ungrar konu að halda sambandinu við sjálfan sig þegar það var svo auðvelt að týna sér,“ útskýrir Jón.

Las flókna lagabálka

Að fara yfir öll þessi dómsskjöl var gríðarlega mikil vinna fyrir hann og tók langan tíma. Jón hafði heldur ekki þekkingu á öllum þeim orðum sem notuð eru í lagabálkum og bandarísku dómskerfi. „Ég þurfti að gúgla nokkrum sinnum á hverri blaðsíðu. Við unnum bókina í Texas sem gerði mér auðveldara að nálgast málsskjölin. Þetta var sérstök reynsla fyrir mig og sömuleiðis átak fyrir hjónabandið. Stundum á miðri leið spurði ég sjálfan mig út í hvað ég væri eiginlega kominn? Það væri kannski hægt að gera aðra bók um reynslu mína af því að vinna þessa sögu,“ segir hann glettinn.

 „Í bókinni talar Jóga í gegnum mig sem er svolítið sérstakur ritstíll. Við höfum fengið frábær viðbrögð og ég er mjög ánægður núna að hafa farið út í þessa miklu vinnu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×