Lífið kynningar

Getur splundrað fjölskyldum

Karen Linda segir að afleiðingar kynferðisofbeldis hafi áhrif á aðstandendur.
Karen Linda segir að afleiðingar kynferðisofbeldis hafi áhrif á aðstandendur. MYND/EYÞÓR

Karen Linda Eiríksdóttir, fjölskyldufræðingur og ráðgjafi hjá Stígamótum, segir kynferðisofbeldi hafa mikil áhrif á fjölskyldu brotaþola og aðra aðstandendur. Stígamót bjóða bæði brotaþolum og aðstandendum ráðgjöf.

"Við erum öll tengd einhverjum. Kynferðisofbeldi hefur áhrif á aðstandendur brotaþola og það er mikilvægt að þeir séu hluti af lausninni,“ segir Karen. „Það getur hjálpað aðstandendum að ræða við þriðja aðila. Ég finn að ástvinir vilja vanda sig og gera rétt, þannig að þeim finnst gott að hafa auka eyru.“

Að sögn Karenar hefur kynferðisofbeldi margvísleg áhrif á brotaþola og þá sem standa þeim nærri. „Fjölskyldumeðlimir taka oft afstöðu og skiptast í fylkingar ef ofbeldið á sér stað innan fjölskyldu. Þetta getur verið mjög erfitt, sérstaklega þegar fjölskyldan trúir ekki brotaþolanum. Þá er líka oft viðkvæðið að eitthvað sé að brotaþolanum.“

Stundum kemur fólk í viðtöl sem er tengt bæði ofbeldismanni og brotaþola nánum böndum. „Þannig kringumstæður valda oft mikilli togstreitu innan fjölskyldu. Til dæmis þar sem bróðir hefur beitt systur sína ofbeldi, það getur verið mjög erfitt fyrir móður að bera þær upplýsingar að annað barnið hennar hafi brotið á hinu. Þá er mikil pressa á móðurina að taka afstöðu með öðru þeirra, sem er flókið og erfitt. Það getur orðið algjört hrun hjá þeim í þessum kringumstæðum.“

Oft koma makar brotaþola í aðstandendaviðtöl. „Þegar maki brotaþola kemst að því að brotið hafi verið á makanum áður en sambandið hófst getur það verið áfall og þá þarf hann að átta sig á hvernig hann glímir við sín viðbrögð,“ segir Karen. „Það er gríðarlega mikilvægt að makinn trúi brotaþolanum og fari ekki í það hlutverk að yfirheyra. Það þarf að veita skilyrðislausan stuðning og vera til staðar. Brotaþoli á ekki að vera í því hlutverki að réttlæta eða útskýra atburði. Það er líka mikilvægt að makar reyni ekki að laga hlutina, því það getur haft öfug áhrif. Mikilvægast er að vera til staðar með óheft hlustunarskilyrði.“


Þessi grein birtist fyrst í sérblaði um Stígamót sem fylgdi Fréttablaðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.