Lífið

Anna eignaðist tvo drengi fyrir tímann: „Áfallið var þvílíkt“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Anna heldur á Ívari Braga í fyrsta sinn, viku eftir að hann fæddist.
Anna heldur á Ívari Braga í fyrsta sinn, viku eftir að hann fæddist. Mynd / Úr einkasafni
„Í dag er 17. nóvember, alþjóðlegur dagur fyrirbura og af því tilefni langar mig að segja ykkur sögurnar af fyrirburunum mínum.“ Á þessum orðum hefst pistill Önnu Daggar Gylfadóttur sem hún birti á Facebook í dag. Anna á tvo drengi sem báðir eru fyrirburar og fer hún yfir fæðingarnar í pistlinum á áhrifaríkan og fallegan hátt.

„Ég var tvítug og ólétt af mínu fyrsta barni og þann 27. apríl um kl. 22 fékk ég smá verki en hugsaði með mér að þetta væru fyrirvaraverkir,“ skrifar Anna er hún lýsir aðdraganda þess að Ívar Bragi kom í heiminn, eftir aðeins tæplega 28 vikna meðgöngu.

Læknirinn hélt að um botnlangabólgu væri að ræða

„Kl. 8 morguninn eftir, þann 28. apríl hringi ég á heilsugæsluna og tala við ljósmóður og ég lýsi áhyggjum mínum og verkjunum sem koma og fara. Hún segir að þetta séu bara fyrirvaraverkir en ef þeir versni yfir daginn eigi ég að láta athuga með þetta. Dagurinn líður og ég er með verki stanslaust en svo um kvöldið fara þeir að versna mjög hratt. Ég fæ sára stingi sem koma og fara. Ég ákveð að fara á Læknavaktina á Smáratorgi og láta athuga með mig. Þetta var mín fyrsta meðganga og ég hafði engin símanúmer né upplýsingar um hvert annað ég ætti að fara,“ heldur Anna áfram, en læknirinn á Læknavaktinni áttaði sig ekki á því sem var að gerast.

Ívar Bragi á fyrsta sundmótinu sínu þann 11. nóvember síðastliðinn.Mynd / Úr einkasafni
„Læknirinn potar í síðuna á mér og ég öskra af sársauka og hans niðurstaða var sú að ég væri með bráða botnlangabólgu og segir mér að fara á bráðamóttökuna. Þegar þangað er komið og læknir skoðar mig hristir hún hausinn og segir að ég eigi bara ekki að vera þarna. Hún segir að það eigi alltaf að byrja á að útiloka fæðingu. Ég fæ morfínsprautu og fer með sjúkrabíl á fæðingardeildina. Morfínið hafði auðvitað ekkert að segja og þegar á fæðingardeildina er komið segir fæðingarlæknirinn mér að ég sé með fulla útvíkkun og að kollurinn sé komin niður. Barnið er að koma og ekkert er hægt að gera til að stoppa það. 2 tímum eftir að ég kem á fæðingardeildina fæðist drengurinn minn. Hann fæddist þann 29. apríl árið 2011 kl. 02:31 eftir 27 vikna og 4 daga meðgöngu. Hann var 28 cm og 1240 gr,“ skrifar Anna um fæðingu í Ívars Braga. Næstu vikur voru erfiðar, enda mátti litli Ívar Bragi ekki fara heim strax.

Lífgaði soninn við


„Ívar Bragi var 11 vikur á vökudeild og þarf af var hann í 6 vikur í hitakassa. Þegar hann var 2 daga gamall kom gat á annað lungað og hann fór í öndunarvél. Meðan hann var á vökudeild hætti Ívar að anda oft á dag og þurftu hjúkrunarfræðingarnir að stökkva til og minna hann á að anda,“ segir Anna, sem þurfti sjálf að lífga litla drenginn sinn einu sinni við.

„Um það bil mánuði eftir að heim var komið tók hann eitt öndunarstopp en sem betur fer vorum við með Angel Care sem pípti og þá stökk ég til og lífgaði hann við. Að sjá hann fölan og frosinn eins og myndasyttu var svakalegt. Aldrei hef ég verið eins hrædd og ég var þá. En hann óx og dafnaði og í dag er Ívar hraustur 6 ára strákur og ekki er hægt að sjá á honum að hann hafi komið 3 mánuðum fyrr í heiminn. Ég er þvílíkt þakklát starfsfólkinu á vökudeild fyrir að bjarga lífi sonar míns og fyrir að gefa honum tækifæri. Starfsfólkið þar er yndislegt og ég vissi alltaf að það var hugsað rosalega vel um hann þegar ég fór heim á kvöldin.“

Nýfæddur Þröstur Máni.Mynd / Úr einkasafni
Rúmföst á meðgöngunni

Fjórum áður síðar varð Anna ólétt af sínu öðru barni. Þá var ákveðið að hún færi í mæðraeftirlit á Landspítalanum og meðganga flokkuð sem áhættumeðganga.

„Komin 9 vikur á leið hitti ég fæðingarlækni sem leggur upp plan og segir mér að legháls verði mældur reglulega. Allt gengur eins og í sögu og er leghálsinn ávallt vel lokaður og langur. Daginn sem ég er komin 27 vikur og 4 daga á leið (sama meðgöngulengd og þegar Ívar fæddist) er leghálsinn mældur og það kemur í ljós að hann hefur opnast innan frá og hangir saman á örfáum millimetrum. Áfallið var þvílíkt og ég sá fyrir mér að ég þyrfti aftur að eignast veikt barn allt of löngu fyrir tíman,“ skrifar Anna. Hún var lögð inn samdægurs og fékk sterasprautu til að undirbúa lungu barnsins.

Þröstur Máni er heilbrigður snáði.Mynd / Úr einkasafni
„Seint um kvöldið fer ég að fá verki og er færð upp á fæðingardeild (ég var mjög heppin að vera inni á spítala en ekki heima). Þar fæ ég lyf í æð til þess að stöðva fæðinguna. Þessi nótt var mjög erfið enda lítið hægt að segja til um hvað myndi gerast og ég með stanslausa samdrætti og svaf ekkert,“ skrifar Anna. Seint og um síðir hættu samdrættirnir en Anna þurfti að vera með æðalegg í þrjá daga. Eftir fimm daga á spítalanum fær hún að fara heim og er hálfpartin rúmföst.

„Ég mátti ekkert reyna á mig, ég átti að hvílast en mátti fara í smá göngutúr úti í garði svo að ég fengi ekki blóðtappa af rúmlegu. Svo þegar ég er komin 30 vikur og 6 daga er ég lögð inn aftur og það kemur í ljós að ég er með legvantsleka og fer því á sýklalyf. Mér er óbeint sagt að ég sé ekki að fara heim fyrr en barnið sé fætt. Seint að kvöldi miðvikudags þann 11 maí fer ég að fá verki og er send upp á fæðingardeild. Þar fara hríðarnar að koma og fara reglulega. Fimmtudaginn 12. maí 2016 kl. 9:10 fæðist drengur eftir 31 viku og 3 daga. Hann var 42 cm og 1760 gr,“ skrifar Anna og fékk drengurinn nafnið Þröstur Máni. Honum gekk betur að braggast en bróður sínum, enda fékk hann lengri tíma í móðurkviði.



Bræðurnir Þröstur og Ívar.Mynd / Úr einkasafni
Til hamingju með daginn fyrirburar!

„Þröstur Máni var 3 vikur á vökudeild og hann var aðeins viku í hitakassa. Hann hafði fengið 4 vikur fram yfir bróðir sinn. Einnig fékk ég 4 sinnum sterasprautu til þess að undirbúa lungun á barninu en þegar ég eignaðist Ívar gerðist allt svo hratt að það náðist ekki. Það eina sem Þröstur þurfti að gera inni á vökudeild var að nærast, þyngjast og ná 35 vikna meðgöngulengd til þess að geta farið heim,“ skrifar Anna og þakkar enn og aftur starfsfólki meðgöngudeildar.

„Það er himinn og haf á milli dvalar bræðranna á vökudeild og ég er mjög þakklát starfsfólkinu á meðgöngudeild fyrir að gefa Þresti heilar 4 vikur í viðbót í bumbunni á mömmu sinni og vera þarf af leiðandi meira tilbúinn að koma í heiminn. Til hamingju með daginn fyrirburar!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×