Innlent

„Samsæri gegn kjósendum“ um lægsta samnefnara

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Vísir/Anton
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði afleitt að ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, sem nú er í burðarliðnum, muni byggja á öðrum forsendum en pólitík. Hann sagði stjórnina skorta framtíðarsýn og stefna flokkanna viki nú fyrir „lægsta samnefnara“ í stjórnarmyndun. Sigmundur var einn gesta í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Skortur á framtíðarsýn

Í pistli sem birtist á vef Miðflokksins á föstudag sagði Sigmundur Davíð að með myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna væri síðastnefndi flokkurinn að veita fyrstnefnda flokknum uppreist æru.

Sigmundur var enn sömu skoðunar í Sprengisandi í morgun og sagðist sammála Þorsteini Víglundssyni, félags- og jafnréttismálaráðherra sem var einnig gestur í Sprengisandi, um skort tilvonandi ríkisstjórnar á framtíðtíðarsýn.

„Mér líst náttúrulega ekkert á þetta. Á vissan hátt á sömu forsendum og Þorsteinn,“ sagði Sigmundur. „Ég er sammála honum um að það sé afleitt að fara í stjórn á öðrum forsendum en út frá pólitík og framtíðarsýn. Og þetta er svo sannarlega ekki stjórn sem byggist á einhverri tilktekinni pólitískri stefnu eða skýrri framtíðarsýn.“

„Samsæri gegn kjósendum“

Þá sagði Sigmundur stjórnarviðræður flokkanna þriggja, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, vera „meira af því sama“, sem hann taldi einn helsta vanda stjórnmálanna undanfarna áratugi. Stjórnmálamenn komi  fram með óljósar áherslur í kosningabaráttu og við stjórnarmyndun víki stefna flokkanna fyrir „lægsta samnefnara.“

„Eftir kosningar mynda þeir [stjórnmálamenn] það sem mætti kalla samsæri gegn kjósendum um það að ná einhverjum lægsta samnefnara og skipta á milli sín embættum í stað þess að berjast fyrir þeirri stefnu sem er boðuð,“ sagði Sigmundur sem viðurkenndi þó að óhjákvæmlegt væri að mætast að einhverju leyti á miðri leið.

„Það er óhjákvæmilegt að gera málamiðlanir en ef menn ætla að ná sem mestu fram, ná sem mestri stefnubreytingu ef þeir hafa talið þörf á því, eða fylgja eftir stefnu sem hefur verið rekin, þá verður að vinna með þeim sem eru helst tilbúnir til þess að ná þeirri stefnubreytingu.“

Kerfisstjórn sem mun ekki ráðast í mikilvægar breytingar

Sigmundur sagði næstu ríkisstjórn hafa einstakt tækifæri til að ráðast í kerfisbreytingar og nefndi þar sérstaklega fjármálakerfið og landspítalann. Hann var þó ekki bjartsýnn á árangur ríkisstjórnarinnar, sem nú er í burðarliðnum, í þeim efnum.

„Þessi stjórn er ekki að fara að ráðast í þær breytingar, hún er ekki að fara að nýta þessi tækifæri. Þetta er kerfisstjórn, stjórn um óbreytt fyrirkomulag. Dettur til dæmis einhverjum í hug að þessi stjórn muni byggja nýjan Landspítala á nýjum stað, eins og þarf að gera?“ sagði Sigmundur.

„Svona hlutir sem snúast um almenna skynsemi, þessi stjórn, kerfisstjórn, er ekki að fara að taka á þeim. Hún er ekki að fara í stór verkefni sem þarf að leysa með óhefðbundnum aðferðum, jafnvel, eins og þetta einstaka tækifæri til þess að endurskoða fjármálakerfið.“

Viðtalið við Sigmund Davíð í Sprengisandi má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×