Innlent

Velferðarráðuneytið kaupir nýja Volvo-lúxusjeppa á 19,5 milljónir

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Nýr farkostur félagsmálaráðherra er sérlega glæsilegur en annar eins er væntanlegur fyrir heilbrigðisráðherra.
Nýr farkostur félagsmálaráðherra er sérlega glæsilegur en annar eins er væntanlegur fyrir heilbrigðisráðherra. vísir/Ernir
Velferðarráðuneytið hefur gengið frá kaupum á tveimur nýjum lúxusjeppum fyrir næstu ráðherra þess. Næsta félags- og jafnréttismálaráðherra og heilbrigðisráðherra verður ekið um á splunkunýjum Volvo XC90 T8, tengil­tvinnjeppum. Kaupverð hvors bíls er 9.730.000 kr. svo alls eru bílakaupin upp á tæpar 19,5 milljónir króna.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var gengið frá kaupum á bílunum á grundvelli örútboðs Ríkiskaupa í sumar. Bíll félags- og jafnréttismálaráðherra hefur þegar verið tekinn í notkun en hann var afhentur á mánudag, en búist er við að ráðherrabifreið heilbrigðisráðherra komi í næstu viku.

Félags- og jafnréttismálaráðherra var fyrir á 2008 árgerð af Land Rover Freelander sem ekinn er 194 þúsund kílómetra, en heilbrigðisráðherra á 2008 árgerð af Volvo XC90 sem ekinn er 265 þúsund kílómetra.

Volvo XC90 tengiltvinnjepparnir hafa notið gríðarlegra vinsælda hér á landi og eru þeir mjög algeng sjón í umferðinni nú orðið. Þessar vinsældir ná einnig til ráðuneytanna því eftir kaupin á jeppunum tveimur samanstendur ráðherrabílaflotinn nú af fjórum tinnusvörtum Volvo XC90 T8 tengiltvinnjeppum. Fyrir voru ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra á slíkum jeppum, báðir keyptir í fyrra.

Með kaupunum lýkur sömuleiðis endurnýjun ráðuneytanna á öllum bifreiðum ráðherrabílaflotans sem hófst í október 2014. Eru nú allir ellefu ráðherrar ráðuneytanna á nýjum eða nýlegum bílum. Heildarkaupverð þessara ellefu bíla nemur rúmlega 117 milljónum króna. Margir hinna nýju bíla eru tengiltvinnbílar, ganga bæði fyrir rafmagni og eldsneyti, og því bæði sparneytnir og umhverfisvænir. Nú þegar kjörnir þingmenn stíga stjórnarmyndunardans í kjölfar kosninganna er ljóst að ekki mun væsa um næstu ríkisstjórn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×