Lífið

Kórar Íslands með Friðriki Dór: „Hef enga reynslu af því að syngja í kór“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Friðrik Dór hlakkar til að vera kynnir, sérstaklega er hann spenntur fyrir beinu útsendingunni. Ari Bragi, Bryndís Jakobs og Kristjana Stefánsdóttir eru í dómnefnd.
Friðrik Dór hlakkar til að vera kynnir, sérstaklega er hann spenntur fyrir beinu útsendingunni. Ari Bragi, Bryndís Jakobs og Kristjana Stefánsdóttir eru í dómnefnd. Vísir/Eyþór
Kórar Íslands er nýr skemmtiþáttur sem verður á dagskrá Stöðvar 2 í vetur en Friðrik Dór Jónsson, einn ástsælasti söngvari landsins, verður kynnir þáttanna. Dómnefndina skipa tónlistarfólkið Kristjana Stefánsdóttir, Ari Bragi Kárason, og Bryndís Jakobsdóttir.

„Þetta leggst bara hrikalega vel í mig og ég held að þarna verði rosalega mikið af skemmtilegu fólki og týpum til að vinna með,“ segir Friðrik Dór spenntur fyrir vetrinum.

„Þetta er nýjung í íslensku sjónvarpi og við getum fagnað því þegar fólk þorir að prófa eitthvað nýtt.

Það verður rosalega gaman að fylgjast með öllu þessu nýja sjónvarpsfólki sem myndar þessa frábæru dómnefnd.“

Friðrik segist vera byrjaður að funda með dómnefndinni og undirbúningsvinnan sé í fullum gangi en þættirnir eru framleiddir af Sagafilm.

„Þetta verður í raun allt saman í beinni útsendingu og því eru tökurnar ekkert sérstaklega flóknar fyrirfram en þættirnir eru átta talsins.“

Hann segir að búið sé að finna tuttugu kóra sem taka þátt í þessari þáttaröð og eru þeir mjög fjölbreyttir og skemmtilegir.

Fyrstu fimm þættirnir eru einskonar undankeppni og komast tíu kórar áfram í undanúrslitin. Síðan verða tveir þættir til að skera hópinn niður í fjóra kóra sem keppa til úrslita sunnudaginn 12. nóvember. Tólf aðilar, í það minnsta, verða að vera í hverjum kór fyrir sig.

„Sjálfur hef ég hundrað prósent enga reynslu af því að syngja í kór og gæti aldrei stýrt kór. Ég er bara kynnir og það eru aðrir í dómnefnd sem taka þetta á faglegu nótunum. Ég verð bara þarna eitthvað að bulla.“

Kórar Íslands hefst í september.

DómnefndAri Bragi Kárason trompetleikari og spretthlaupari

Ari Bragi er afreksmaður á tveimur sviðum, hann er einn af bestu trompetleikurum landsins og er í íslenska landsliðinu í frjálsum íþróttum.

Ari Bragi hefur leikið inn á hljómplötur með stórstjörnum á borð við Norah Jones, auk fjölmargra af þekktustu tónlistarmönnum landsins eins og Sigur Rós, Hjaltalín, Bubba Morthens, Jóel Pálssyni og Stórsveit Reykjavíkur.

Ari Bragi útskrifaðist frá Tónlistarskóla FÍH árið 2008 af jazz- og rokkbraut auk þess að ljúka á sama tíma námi af klassískri braut skólans. Eftir það hélt hann til náms í New York og útskrifaðist með láði frá New School for Jazz and Contemporary Music árið 2012.

Bryndís Jakobsdóttir söngkona og lagasmiður

Stuðmannabarnið Bryndís Jakobsdóttir, eða Dísa eins og hún er kölluð, er tónlistarkona sem hefur heillað land og þjóð með dásamlegri rödd sinni og tónsmíðum.

Dísa hefur numið og starfað í Danmörku undanfarin ár.Dísa úrskrifaðist sem lagasmiður úr tónlistarskólanum Rytmisk Musikkon-servatorium en hún er einnig lærður íþróttanuddari.Hún hefur samið tónlist fyrir auglýsingar og kvikmyndir en nýjasta lagið hennar Reflections situr á vinsældalistum landsins þessa dagana. Dísa starfaði sem tónlistarkennari í Danmörku og stjórnaði tveimur kórum þar.

Kristjana Stefánsdóttir söngkona, tónlistarstjóri og tónskáld

Kristjana Stefánsdóttir er ein ástsælasta söngkona landsins og Edduverðlaunahafi 2016 fyrir tónlistina í Bláa hnettinum. Kristjana lauk námi í jazzsöng frá Konunglega Listaháskólanum í Haag í Hollandi vorið 2000 undir handleiðslu Rachel Gold, en áður hafði hún lokið söngnámi við Söngskólann í Reykjavík.

Kristjana hefur einnig lokið námi í söngtækni hjá Cathrine Sadolin í Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn 2005. Kristjana hefur víða komið fram sem jazzsöngkona, á Íslandi, í Hollandi, Englandi, Þýskalandiog Finnlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×