Innlent

BF ekki rætt borgarbandalag við Viðreisn

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Óttarr segir flokksmenn ekki velta sér mikið upp úr slöku gengi í skoðanakönnunum.
Óttarr segir flokksmenn ekki velta sér mikið upp úr slöku gengi í skoðanakönnunum.
„Þetta er auðvitað í fyrsta sinn sem við höldum ársfund sem þátttakendur í ríkisstjórn,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar Framtíðar. „Þannig að það er svona pólitíska sviðið sem við munum virða fyrir okkur og munum auðvitað spekúlera í vetrinum fram undan.“

Ársfundur Bjartrar Framtíðar verður settur á Hotel Natura á morgun. Óttarr Proppé gefur áframhaldandi kost á sér sem formaður Bjartrar Framtíðar. Tveir hafa gefið kost á sér í embætti stjórnarformanns flokksins, það eru þau Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar Framtíðar í Hafnarfirði og forseti bæjarstjórnar og G. Valdemar Valdemarsson, ritari flokksins og oddviti hans í NV kjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar í fyrra.

„Það er heilmikið að gerast í íslenskri pólitík,“ segir Óttarr. „Við erum á toppinum á ákveðinni efnahagssveiflu sem kallar á ábyrg stjórnmál en síðan erum við í Bjartri Framtíð að læra mikið af því hvernig er að vera flokkur í ríkisstjórn og hvernig við ætlum að vinna í þeim aðstæðum og breyta pólitíkinni hjá okkur sjalfum.“

Fylgi Bjartrar Framtíðar var þokkalega gott frá stofnun. Mest mældist flokkurinn með 18.6 prósent samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup en síðan þá hefur fylgið nokkuð dalað sér í lagi eftir að flokkurinn settist í ríkisstjórn. Nýlegustu kannanir sýna að Björt Framtíð myndi ekki ná manni inn á Alþingi ef kosið væri í dag.

Óttarr segist ekki hafa miklar áhyggjur af fylginu. Flokkurinn hlaupi ekki á eftir vinsælum straumum og vill stjórna af ábyrgð.

„Við í Bjartri Framtíð höfum nú ekki almennt hlaupið algerlega í vinsældarpólitíkina þó að við viljum auðvitað hafa stuðning til góðra verka,“ segir Óttarr. „Við viljum vera í pólitík til þess að taka ábyrgð. Á borði en ekki bara í orði. Það getur verið erfiðara að standa við stóru orðin þegar maður er í stöðu til að setja stefnu og sömuleiðis líka í ábyrgð til að standa undur henni. Þannig að þetta verður partur af okkar umræðum um helgina,“ segir hann.

Óttarr Proppé og Benedikt Jóhanesson voru mjög samstíga í stjórnarmyndunarviðræðum.Vísir/Anton
Eftir síðustu Alþingiskosningar mynduðu Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, bandalag flokkanna fyrir viðræður um myndun ríkisstjórna. Bandalagið skilaði flokkunum samtals fjórum stólum við ríkisstjórnarborðið. Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki um að flokkarnir myndu bjóða fram saman á sveitastjórnarstigi eða jafnvel sameinast.

Í nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins kemur fram að Viðreisn myndi fá einn fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur ef kosið væri í dag en Björt Framtíð myndi missa sína tvo borgarfulltrúa. Óttarr segir að engar samræður hafi átt sér stað um bandalag eða sameiningu. Ákvarðanir um samstarf á sveitastjórnarstigi væri þá ákveðið á meðal félaga Bjartrar Framtíðar í hverju sveitafélagi fyrir sig.

„Nei það hefur ekki komið til tals að fara að starfa sérstaklega náið með öðrum flokkum eða sameinast eins og maður heyrir nú stundum kallað,“ segir Óttarr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×