Umfjöllun: Finnland - Ísland 1-0 | Slök frammistaða og tap í Tampere | Sjáðu markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísland laut í lægra haldi fyrir Finnlandi, 1-0, í Tampere í I-riðli undankeppni HM 2018 í dag.

Alexander Ring skoraði eina mark leiksins með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu á 7. mínútu.

Íslenska liðið var miklu meira með boltann það sem eftir lifði leiks og sótti stíft. Það vantaði samt meiri hugmyndaauðgi og betri ákvarðanatöku á síðasta þriðjungnum til að opna finnsku vörnina.

Ísland er enn í 2. sæti riðilsins en Úkraína eða Tyrkland geta komist upp fyrir Íslendinga með sigri í leik liðanna í Kharkiv í kvöld.

Næsti leikur Íslands er gegn Úkraínu á Laugardalsvellinum á þriðjudaginn. Eftir úrslit dagsins verður hann einfaldlega að vinnast.

Birkir Bjarnason náði sér ekki á strik.vísir/ernir
Íslenska liðið byrjaði leikinn af ágætis krafti og setti góða pressu á heimamenn. En á 7. mínútu dundi áfallið yfir. Ring kom Finnum þá yfir með stórglæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu í slá og inn.

Í aðdraganda aukaspyrnunnar náðu Finnar að leysa pressu Íslendinga, Perparim Hetemaj fékk boltann milli miðju og varnar, Emil Hallfreðsson elti hann og endaði á því að brjóta á honum. Klaufalega gert.

Alfreð Finnbogason fékk besta færi Íslendinga í fyrri hálfleik. Hann fékk þá boltann óvænt í dauðafæri en fyrsta snertingin sveik Alfreð og Lukas Hradecky í finnska markinu bjargaði.

Annars skapaði íslenska liðið sér ekki mikið í fyrri hálfleik og það vantaði allan slagkraft í sóknarleikinn. Íslendingar komust nokkrum sinnum í ákjósanlegar stöður en fyrirgjafir og úrslitasendingar voru ekki nógu góðar.

Slakur dómari leiksins, Pavel Královec, var í sviðsljósinu í fyrri hálfleik. Tim Sparv, fyrirliði Finnlands, komst upp með að gefa Alfreð olnbogaskot og Robin Lod slapp á einhvern óskiljanlegan hátt með gult spjald þegar hann fór með sólann í legginn á Alfreð. Þá eru ótaldar nokkrar ákvarðanir Královec sem orkuðu tvímælis.

Aron Einar fellur við.vísir/ernir
Staðan í hálfleik var 1-0. Íslenska liðið jók pressuna í seinni hálfleik en gekk áfram erfiðlega að opna vörn Finna.

Heimir Hallgrímsson gerði tvöfalda skiptingu á 59. mínútu; setti Rúrik Gíslason og Björn Bergmann Sigurðarson inn fyrir Birki Má Sævarsson og Emil. Skömmu síðar fékk Björn Bergmann gott færi en skaut í varnarmann Finna.

Botninn datt úr leik Íslands eftir þetta og á 64. mínútu bjargaði Rúrik á línu frá Paulus Arajuuri og kom í veg fyrir að Finnar næðu tveggja marka foryustu.

Á 76. mínútu missti Rúrik boltann klaufalega frá sér og braut í kjölfarið af sér og fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Engin draumainnkoma hjá Rúrik.

Kári Árnason í skallaeinvígi.vísir/ernir
Á 82. mínútu fékk Gylfi Þór Sigurðsson boltann rétt fyrir utan vítateig Finna eftir góðan sprett Arons Einars Gunnarssonar. Draumastaða fyrir Gylfa en skotið fór framhjá markinu.

Fjórum mínútum síðar slapp Eero Markkanen inn fyrir íslensku vörnina. Hann hafði allan tímann í heiminum og reyndi að vippa yfir Hannes Þór Halldórsson sem sá við honum.

Gylfi lét reyna á Hradecky á 90. mínútu en markvörðurinn öflugi varði vel.

Þrátt fyrir góðan vilja náði íslenska liðið ekki að skora jöfnunarmark og Finnar fögnuðu sínum fyrsta sigri í riðlinum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira